Fræðslumiðstöð – Námskeið í nóvember

Í nóvember kennir ýmissa grasa hjá Fræðslumiðstöðinni. Nú þegar veturinn fer að skella á og myrkrið verður meira er vel við hæfi að huga að andlegri heilsu. Þann 7. nóvember hefst tveggja kvölda vinnustofa með Helenu Jónsdóttur sálfræðingi sem kallast Vellíðan í lífi og starfi – tekist á við streitu og kulnun. Tveimur vikum seinna, þann 21. nóvember verður Helena svo með frían örfyrirlestur í tilefni af 20 ára afmæli Fræðslumiðstöðvarinnar þar sem umfjöllunarefnið er líðan og tilfinningar.

Margir hafa gaman af því að rifja upp og skrifa hjá sér bæði nýjar og gamlar minningar. Helgina 8.-10. nóvember verður áhugavert helgarnámskeið um Endurminningarskrif sem fólk ætti endilega að kynna sér.

Fyrir þá sem hafa gaman af mat og matargerð má hins vegar benda á námskeið um Súrdeigsbakstur sem verður laugardaginn 23. nóvember og fjögur námskeið um Ostagerð, 13. nóvember á Patreksfirði, 14. nóvember á Hólmavík og 15. og 16. nóvember í Bolungarvík.

Tvö áhugaverð tölvunámskeið verða einnig í boði. Annars vegar er námskeið um Office 365 þar sem fjallað verður um þá miklu möguleika Office pakkinn hefur upp á að bjóða en eru yfirleitt mjög vannýttir. Hins vegar er námskeið um Tölvuöryggi, viðfangsefni sem allir ættu í raun að vera meðvitaðir um.

Fræðslumiðstöðin er að auglýsa tvö námskeið í samstarfi við Rauða krossinn í nóvember, Skyndihjálp og Sálrænan stuðning. Vakin er athygli á því að skyndihjálparnámskeiðið er 12 klukkustundir sem er sú lengd sem þarf til að fá námskeiðið metið til eininga í framhaldsskóla.
Þann 6. nóvember hefst Viðbótarnámi í vélgæslu sem haldið er í samvinnu við Menntaskólann á Ísafirði. Nú í haust hafa verið vélgæslunámskeið, bæði á Ísafirði og Bíldudal, en með þessu námskeiði gefst fólki tækifæri til að byggja ofan á og öðlast aukin réttindi.

DEILA