Vestri hjólreiðar : 1. árs afmæli

Vestri hjólreiðar fagnar eins árs afmæli í vikunni, af því tilefni ætlar félagið að bjóða fólki út að hjóla seinnipartinn í dag eða kl 17:15. Fólk getur valið um að mæta upp á Seljalandsdal eða í hjólagarðinn. Í hjólagarðinum geta ungir sem aldnir prófað nýju þrautirnar í garðinum, garðurinn er allur að taka á sig mynd. Upp á dal verður boðið upp 2-3 miserfiðar hjólaleiðir. Erfiðleikastig leiða verður miðað við þá sem mæta, stefnan er svo að hjóla niður í Hjólagarð og þaðan saman á Dokkuna.
Að sögn Heiðu Jónsdóttur ætlar Jói Bakari að mæta þangað með afmælisköku og stjórn félagsins verður með smá samantekt um starfsemina.
Vinnan í hjólagarðinum gekk mjög vel á mánudaginn, það mætti alveg her af fólki. Við gerðum atlögu að njólanum og lúpínunni, hreinsuðum rusl af svæðinu og mokuðum nokkra hóla. Valli kom svo á einni gröfunni sinni og fór í aðeins stórtækari aðgerðir. Það er samt enn þá af nógu að taka segir Heiða.

DEILA