Rarik gefur ríkinu Dynjanda

Dynjandi er eðlilega einn af vinsælustu áfangastöðum Vestfjarða.

Í tilefni af 75 ára lýðveldisafmæli Íslands hefur RARIK fært íslenska ríkinu jörðina Dynjanda við Arnarfjörð að gjöf. Formleg afhending fór fram í dag, á Degi íslenskrar náttúru. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, tók á móti gjöfinni fyrir hönd ríkisins.

Innan marka jarðarinnar er náttúruvættið Dynjandi ásamt vatnasviði fossanna í Dynjandisá. Dynjandi er meðal hæstu fossa landsins, nær 100 metra hár, og af mörgum talinn ein af fegurstu náttúruperlum Íslands. Hann er einn helsti viðkomustaður ferðamanna á Vestfjörðum. Svæðið við Dynjanda er að mestu ósnortið og einkennist af áhrifum jökla sem hafa sorfið landið og skilið eftir sig einstaklega mikinn fjölda vatna og tjarna á Dynjandisheiði.

Vegna sérstöðu þessa mikilfenglega náttúrvættis og tengingar jarðarinnar við fæðingarstað Jóns Sigurðssonar, ákvað stjórn RARIK að færa ríkissjóði Íslands jörðina Dynjanda að gjöf á lýðveldisafmælinu. Samhliða því sem jörðin var afhent í dag undirrituðu Guðmundur Ingi og Birkir Jón Jónsson, formaður stjórnar RARIK, samkomulag milli ríkisins og RARIK. Markmið þess er að tryggja útivistar- og náttúruverndargildi jarðarinnar og náttúruvættisins Dynjanda. Dynjandi og aðrir fossar í Dynjandisá ásamt umhverfi þeirra voru friðlýst sem náttúruvætti árið 1981 en af hálfu stjórnvalda er nú stefnt að friðlýsingu allrar jarðarinnar.

„Með þessari rausnarlegu gjöf RARIK til þjóðarinnar skapast einstakt tækifæri til að tengja jörðina Dynjanda við Friðlandið í Vatnsfirði og skapa þannig mikilvæg verðmæti fyrir sunnanverða Vestfirði. Friðlýst svæði á sunnanverðum Vestfjörðum yrðu stærri og samfelldari en nú er, með tilheyrandi tækifærum fyrir þetta stórbrotna svæði – ekki síst þegar samgöngubótum þar verður lokið og hringtenging á Vestfjörðum komin á,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

„Náttúru svæðisins yrði með þessu gert hærra undir höfði og aðdráttarafl fyrir ferðafólk ykist til muna. Rannsóknir sýna að það er efnahagslega hagkvæmt að vernda náttúruna og að langstærstur hluti þeirra gesta sem sækja landið heim koma hingað vegna hennar.“

Jörðin Dynjandi er gömul eyðijörð með ummerki um langa búsetu og fornleifar á svæðinu hafa sögulegt og menningarlegt gildi. Mikil uppbygging hefur átt sér stað við Dynjanda, með auknu framlagi stjórnvalda til uppbyggingar innviða og umhverfismála. Þannig var bílastæði við rætur fossins tekið í gegn sumarið 2018 og nýtt salernishús sem mun umbylta hreinlætisaðstöðu staðarins var tekið í notkun í dag. Fram undan eru meðal annars endurbætur á göngustígum og framkvæmdir við nýja útsýnispalla.

DEILA