Miklar framkvæmdir við hafnir í Vesturbyggð

Vesturbyggð rekur hafnir á þremur stöðum. Á árinu 2019 er unnið verulega við allar þessar hafnir, sérstaklega á Bíldudal. Annars eru framkvæmdirnar þessar helstar.

Brjánslækjarhöfn:
Á vormánuðum var settur upp nýr löndunarkrani við Brjánslækjarhöfn, einnig voru endurnýjaðar dekkjalengjur við olíubryggju sem og skipt um kastara í ljósamöstrum.
Fyrirhugað er á haustmánuðum að klára uppsetningu á rafmagnstenglum fyrir landtengingar smábáta, en það verkefni hefur verið í undirbúningi í talsverðan tíma.

Bíldudalshöfn:
Á fjárhagsáætlun 2019 voru 1.600.000.- kr áætlaðar í viðhald og 3.650.000.- kr í sérgreind verkefni.
Til viðbótar þessum tölum eru svo framkvæmdir við lengingu stórskipakants og endurbygging hafskipabryggju, hlutur Hafnarsjóðs í því verkefni er áætlaður um 70.000.000 á árinu 2019.
Nýtt ruslagerði var sett upp ofan við smábátabryggju, þar má skila inn almennum úrgangi, olíusíum, úrgangsolíu, plasti, pappa, rafgeymum o.s.frv. Einnig var farið í jarðvinnu við innanverða höfnina og gengið frá ófrágengnum svæðum, þau tyrft og snyrt. Þá er búið að greiða fyrir stækkun á heimtaug á Bíldudalshöfn úr 400A í 630A, en með aukinni skipakomu hefur aukist eftirspurn eftir rafmagni á höfninni.
Fyrirhuguð verkefni á haustmánuðum eru:
Færsla á girðingu við kalkþörungafélagið til að rýmka fyrir gámum er fyrirhuguð í september.
Í október verður boðinn út niðurrekstur á stálþili sem og steyptum kanti, stefnt að því að hefja niðurrekstur fyrir áramót. Þetta er hluti af stærra verkefni sem áætlað er að klárist vorið 2021.
Klára breytingar á heimtaug frá 400A í 630A

Patrekshöfn:
Helstu verkefni ársins hafa verið viðhald á vogarhúsi en þar var skipt var um gler og glugga. Fjárfest var í nýrri færanlegri hafnarvog, en ætlunin með henni er að minnka lyftaraumferð á höfninni sem og að flýta fyrir afgreiðslu smábáta. Þá voru settar upp nýjar dekkjalengjur við timburbryggju. Einnig voru uppfærðir kastarar í möstrum, annar löndunarkraninn yfirfarinn sem og áfram unnið í eftirlitsmyndavélakerfi.
Fyrirhuguð verkefni á haustmánuðum eru að fjölga dekkjalengjum við timburbryggju. Setja upp varnargirðingu til að aðskilja gámasvæði frá hafnarkanti, en mikil vöntun hefur verið á svæði undir geymslugáma fyrir notendur hafnarinnar og að yfirfara löndunarkrana.

DEILA