Málþing um lýðskóla á Íslandi

Lýðskólinn á Flateyri, LUNGA skólinn á Seyðisfirði og UMFÍ halda í samstarfi við Mennta- og menningarmálaráðuneytið málþing um lýðskóla á Íslandi. Málþingið verður haldið laugardaginn 21. september næstkomandi í húsnæði Lýðskólans á Flateyri, Hafnarstræti 11, kl. 13-15.

Á málþinginu verður fjallað um lýðskóla á Íslandi, sögu þeirra, stöðu og framtíð. Guðmundur Oddur Magnússon/Goddur prófessor í LHÍ og stjórnarmaður í LUNGA skólanum, segir frá reynslu af starfsemi Lungaskólans á Seyðisfirði, Ingibjörg Guðmundsdóttir, skólastjóri Lýðskólans á Flateyri, kynnir árangur af fyrsta starfsári skólans og Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, segir frá áformum um íþróttalýðskóla á Laugarvatni. Nemendur, kennarar og íbúar á Flateyri segja einnig frá sinni upplifun og reynslu af fyrsta starfsári skólans í þorpinu og Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar fjallar um samfélagsleg áhrif lýðskóla á nærumhverfi.

Fjallað verður um starfsumhverfi lýðskóla í ljósi nýrra laga um þá og Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra greinir frá stefnu stjórnvalda í málefnum lýðskóla. Runólfur Ágústsson, formaður stjórnar Lýðskólans á Flateyri er umræðustjóri.
Málþingið er öllum opið.

DEILA