Loðna í Háskólasetrinu

Fiskveiðistjórnun í Norðvestur-Atlantshafi með áherslu á loðnu nefnist erindi sem næsti gestur í Vísindaporti vikunnar flytur, en það er Chelsea Boaler, doktorsnemi í sjávarútvegsfræði og fyrrum nemandi í Haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða. Í erindi Chelsea verður sjónum beint að loðnunni (Mallotus villosus), en loðnan er mikilvægur hlekkur í vistkerfi Norður-Atlantshafsins. Bæði er loðnan fæða annarra fiska, en þessi smávaxni uppsjávarfiskur er ekki síður mikilvægur sem lífsviðurværi manna. Undanfarin ár hefur göngumynstur loðnunnar við austurströnd Kanada breyst varðandi það hvar og hvenær hún hrygnir. Einnig benda athuganir á þessum stofni til þess að kanadíska loðnan sé farinn að blandast loðnustofninum í Norður-Íshafi og þetta hefur ýmsar afleiðingar fyrir vistkerfið í för með sér, en einnig félags- og efnahagslegar afleiðingar sem rannsókn Chelsea snýr að.
Chelsea ólst upp á sléttum Kanada en hefur alla tíð heillast af hafinu. Eftir að hafa lokið BSc-gráðu í sjávarlíffræði og umhverfismálum og sjálfbærni frá Dalhousie-háskólanum í Kanada hóf hún nám við Háskólasetur Vestfjarða. Á Ísafirði eignaðist Chelsea vin sem kynnti hana fyrir Nýfundnalandi og þangað var Chelsea ráðin til einkafyrirtækis að loknu námi. Eftir tvö ár hjá fyrirtækinu sem verkefnastjóri á sviði umhverfismála settist Chelsea að nýju á skólabekk og hóf doktorsnám í sjávarútvegsfræði við Memorial-háskólann. Í rannsóknarverkefni sínu leggur Chelsea áherslu á þekkingu og kerfi, vísindaleg samskipti og velferð samfélagsins í tengslum við fiskveiðar. Fyrir utan að hafa gaman af rannsóknum hefur Chelsea áhuga á heilsu og vellíðan og skemmtilegast finnst henni að leggja upp í ævintýri í samfylgd með fjölskyldunni og hundinum þeirra.
Vísindaportið er opið öllum og fer fram kl. 12:10-13 í kaffistofu Háskólaseturs. Að þessu sinni verður erindið flutt á ensku. Verið velkomin.

DEILA