Framsókn vill hertar reglur um jarðakaup útlendinga

Fimm þingmenn Framsóknarflokksins hafa lagt fram þingsályktunartillögu um um aðgerðaráætlun í jarðarmálum. Í ályktuninni er lagt til að ríkisstjórnin hrindi í framkvæmd aðgerðaráætlun í 7 liðum, til að styrkja lagaumgjörð og reglur um ráðstöfun og nýtingu auðlinda á landi, ásamt aðgerðum til að styrkja grundvöll til eftirfylgni slíkra reglna, eins og segir í tillögunni. Markmiðið er að tryggja eignarhald landsmanna á jörðum á Íslandi og skapa þannig tækifæri til heilsársbúsetu í dreifbýli og fjölbreyttrar sjálfbærrar landnýtingar og matvælaframleiðslu í landinu. Tillagan fellur vel að markmiði ríkisstjórnarinnar um að setja skilyrði um kaup á landi.

Í greinargerð með tillögunni kemur fram að gildandi lagaumhverfi leiðir af sér að rúmlega 500 milljón manns geta keypt land og aðrar fasteignir hér á landi með sömu skilyrðum og íslenskir ríkisborgarar. Flutningsmenn telja brýnt að settar verði reglur um að skilgreind tengsl við Ísland séu forsenda fyrir eignarhaldi á jörðum hér á landi enda hefur ásókn fólks sem ekki er búsett á Íslandi eftir eignarhaldi á jörðum aukist á síðustu árum.

Líneik Anna Sævarsdóttir er fyrsti flutningsmaður tillögunnar og meðflutningsmenn eru Halla Signý Kristjánsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Willum Þór Þórsson og Þórarinn Ingi Pétursson.

DEILA