Stórleikur í handbolta í Jakanum

Dagur Sigurðsson, þjálfari japanska landsliðsins.

Í tilefni af 100 ára afmæli Harðar á Ísafirði stendur Handknattleiksdeild félagsins fyrir stórleik í Íþróttahúsinu á Torfnesi. Landslið Japan undir stjórn Dags Sigurðssonar mætir þar Val, en með því liði lék Dagur hér á landi áður en hann hélt út í atvinnumennsku. Íslenska landsliðið vann Japani á HM í janúar en hvað munu Valsmenn gera? Leikurinn verður í Torfnesi sunnudaginn 11. ágúst klukkan 14:00. Miðaverð er 1500 krónur fyrir fullorðna en 500 krónur fyrir börn.

Að sögn Braga Axelssonar, forsvarsmanns handknattleiksdeildar Harðar koma Japanarnir í dag eða fyrramálið og fara aftur á mánudaginn. Hópurinn mun gista á Flateyri. Dagur Sigurðsson hefur taugar til staðarins en hann á þar hús. ætlunin er að sögn Braga að leyfa japönsku strákunum að upplifa vestfirska náttúru og m.a. fara á veiðar.

DEILA