Menntaskólinn settur

Í síðustu viku var Menntaskólinn settur og þar með hefst 50. starfsár hans. Nemendur í Menntaskólanum á Ísafirði eru alls 442 og hafa aldrei verið fleiri frá upphafi skólans. Dagskólanemendur eru 182 og þar af eru nýnemar 39 talsins. Að sögn Jóns Reynis Sigurvinssonar skólameistara, sem aftur hefur tekið við stjórn skólans eftir árs leyfi, hefur námsframboð aldrei verið jafn fjölbreytt. Auk hefðbundinna bóknámsbrauta er starfrækt starfsbraut og nokkrar starfs- og verknámsbrautir. Eftir nokkurt hlé er nú boðið upp á grunnnám í háriðngreinum, en 9 nemendur hófu nám við brautina nú í haust. Stálsmíði fór líka af stað nú í haust en brautin nýtur góðs af góðri samvinnu MÍ og Skaginn 3X.

Þrenns konar dreifnám er í boði við skólans en það er nám til starfsréttinda sem er kennt með vinnu og býður skólinn upp á skipstjórnar-, húsasmíða- og sjúkraliðanám.

Húsasmiðanámið hefur síðast liðin þrjú ár verið kennt í kvöld- og helgarlotum og hefur notið mikilla vinsælda. Í ár er fullt í námið og biðlisti, en alls eru 23 nemendur í húsasmiðanámi á haustönn.

Einn stærsti vaxtarbroddur skólans undanfarin ár eru fjarnámskennsla. Alls stunda nú 132 nemendur nám í fjarnámi og að meðaltali er hver nemandi að taka tvo áfanga í fjarnámi. Undanfarið hefur aukist mjög að nemendur velji að hafa MÍ sem heimaskóla sem þýðir að þeir innritast á brautir og stefna á útskrift frá skólanum. Er nú svo komið að þriðjungur fjarnema stefnir á það. Áfram er lögð áhersla á leiðsagnarnám í kennslu (e. formative assessment), en í því felst m.a. að virkja nemendur til þess að vera eigendur og ábyrgðarmenn á eigin námi.

Mikið líf er á lista- og nýsköpunarbrautinni, þar sem nemendur leggja stund á ýmsar listgreinar svo sem teikningu, hönnun, leiklist og kvikmyndagerð.

DEILA