Mengun skemmtiferðaskipa

Skemmtiferðaskipið Rotterdam á Sundabakka.

Mikil umræða hefur undanfarið verið um mengun í höfnum á Íslandi af völdum skemmtiferðaskipa. Samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða og Hafnarstjórnum á Ísafirði er það eftirlit á Ísafirði á vegum umhverfisfulltrúa Ísafjarðarbæjar.
Í viðtali við Ralf Trylla umhverfisfulltrúa kom fram að síðan í vor hefði verið fylgst með loftgæðum með einum mæli sem staðsettur væri í miðbæ Ísafjarðar. Það væri of lítið og að fjölga þyrfti mælum til þess að gott yfirlit fengist um loftgæði í Skutulsfirði. Ekki þyrfti nema stóran vörubíl eða að grillað væri í nágrenni við mælinn til að hann sýndi umtalsverða mengun. Hann sagði að í sumar hefði hann aldrei mælt verulega mengun í lengri tíma í einu, heldur hefði aðeins verið um skamma stund að ræða. Hann ítrekaði að til þess að hafa gott yfirlit þyrfti að hafa mæla á fleiri stöðum. Hann sagði einnig að brennsla á svartolíu væri bönnuð í höfnum Ísafjarðarbæjar og vissi ekki annað en eftir því væri farið.

DEILA