Lýðskólinn á Flateyri

Lýðháskólinn á Flateyri er að hefja sitt annað skólaár og nú undir nýju nafni, Lýðskólinn á Flateyri. Nafnabreytingin er tilkomin vegna nýrra laga sem samþykkt voru á alþingi í sumar um Lýðskóla.
Skólinn mun hefjast þann 20. september næstkomandi en formleg skólasetning fer fram þann 21. september. Inntaka nemenda stendur enn yfir. Rúmlega fimmtíu umsóknir hafa borist og er stefnt að því að taka inn um 35 nemendur sem er fjölgun frá fyrra ári.
Að sögn Ingibjargar Guðmundsdóttur skólastjóra gekk fyrsta starfsár skólans mjög vel og því hefur ekki þótt ástæða til að gera breytingar á námskrá skólans eða kennslufyrirkomulagi, nema í mjög litlu mæli. Lýðskólinn býr svo vel að vera búin að manna kennarastöður með nánast sama kennarahópi og á síðasta skólaári svo við erum að byrja að byggja upp reynslu og þekkingu innan kennarahópsins sem mun nýtast skólanum vel í framtíðinni.
Stofnað hefur verið sjálfseignafélag um nemendagarða Lýðskólans á Flateyri og hefur félag með aðstoð Ísafjarðarbæjar keypt húsnæði heilsugæslustöðvarinnar á Flateyri. Húsnæði þetta verður nýtt undir nemendagarða og stendur nú yfir vinna við að breyta húsnæðinu svo það geti þjónað sem best nýju hlutverki sínu.

Frá Lýðskólanum á Flateyri

DEILA