Króatinn Marko gengur í raðir Vestra

Körfuknattleiksdeild Vestra hefur samið við Króatann Marko Dmitrovic um að leika með liðinu á næsta keppnistímabili. Marko er frá Zagreb höfuðborg Króatíu og hefur leikið með tveimur sterkustu liðum landsins. Hann er þrítugur að aldri, 2,07 metrar á hæð og getur leikið jöfnum höndum sem framherji og miðherji. Á síðasta tímabili lék Marko á Ítaliu með Airino Basket Termoli, þar sem hann skoraði 15,3 stig að meðaltali í leik og tók rúmlega 8 fráköst. Það er ljóst að með komu Marko eykst meðalhæðin duglega í liði Vestra og verður gaman að fylgjast með þeim Marko og Nemanja Knezevic undir körfunni í vetur.
Undirbúningur fyrir leik Vestra í 1. deildinni í vetur er í fullum gangi. Í síðustu viku gekk slóvenski leikmaðurinn Matic Macek til liðs við félagið. Matic er um 190 cm bakvörður sem getur bæði leyst stöðu leikstjórnanda og skotbakvarðar. Á síðasta tímabili lék hann fyrst með Haukum í úrvalsdeildinni en síðar með Sindra í 1. deild. Hér er á ferðinni reynslumikill leikmaður sem mun styrkja ungt og efnilegt lið Vestra á komandi vetri.
Körfuknattleiksdeild Vestra býður þá Marko og Matic velkomma til leiks og stuðningsmenn félagsins hlakkar til að sjá til þeirra í vetur.

DEILA