Íþróttamannvirki á Ísafirði

Í fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2019 er gert ráð fyrir 6 milljón króna framlagi til íþróttafélaga í gegnum svonefnda uppbyggingasamninga. Framlag ársins skiptist jafnt á milli Skíðafélags Ísfirðinga, Hestamannafélagsins Hending, Skotíþróttafélags Ísafjarðarbæjar og Golfklúbbs Ísafjarðar þannig að 1,5 milljón kemur í hlut hvers félags. Að sögn forsvarsmanna Héraðssambands Vestfirðinga hefur það gefið góða raun að gera þessa uppbyggingasamninga og í ár hafa félögin lagt fram nýjar tillögur til að vinna eftir. Þar er gert ráð fyrir að ráðist verði í umfangsmiklar framkvæmdir á vegum þessara félaga. Um þau áform verður fjallað nár hér á vefnum á næstunni.
Auk þessa framlags gerir fjárhagsáætlun Ísafjarðar ráð fyrir að 220 milljónum verði veitt í hönnun og byggingu á boltahúsi á Torfnesi. Starfsmenn Ísafjarðarbæjar og Ríkiskaupa vinna að því verkefni og er áætlað að bjóða verkið út á Evrópska efnahagssvæðinu á næstu vikum.

DEILA