Fundur Sjálfstæðisflokksins á Ísafirði

Mynd Birna Lárusdóttir

Góð mæting var á fundi þingflokks Sjálfstæðisflokksins í Edinborgarhúsinu í gærkvöldi þar sem ráðherrarnir Bjarni Benediktsson og Guðlaugur Þór Þórðarson og þingmennirnir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Sigríður Andersen og Ásmundur Friðriksson fluttu stutt ávörp og sátu fyrir svörum hjá fundarmönnum. Umræður voru líflegar og víða komið við.
Mikil gagnrýni kom fram á stofnanir ríkisins sem eru til umsagnar og eftirlits með framkvæmdum og voru mörg dæmi nefnd um óhóflegan drátt sem væru í umsagnarferli hjá eftirlitsaðilum. Þessar stofnanir væru beinlínis að tefja fyrir í mörgum tilfellum og var laxeldi í sjó, Teigskógur og Hvalárvirkjun oft nefnd í þessu sambandi. Fjármálaráðherra sagði vinnu í gangi í ráðuneytum atvinnumála til að einfalda regluverk og sagði ráðherrana Þórdísi Kolbrúnu og Kristján Þór vinna þar að. Greinilega kom fram skoðanamunur í málefnum þriðja orkupakkans en ekki var annað að heyra að öruggt væri að hann yrði samþykktur síðar í mánuðinum.
Jónas Þór Birgisson benti á að Íslendingum gengi illa að vinna eftir langtímaáætlunum sagði að þó svo að Hvalárvirkjun og laxeldi í Djúpinu væru inni í slíkum áætlunum gengi ótrúlega hægt að koma þeim málum áfram enda þótt ríkur vilji væri hjá heimamönnum til þess.
Enginn stuðningur kom fram við að sameining sveitarfélaga færi fram með lagasetningu heldur ætti það alfarið að ráðast af vilja íbúa viðkomandi sveitarfélaga. Fjármálaráðherra varpaði því fram að kjördæmin væru of stór og bæri að helminga þau og sagði einnig að efling byggðar í landinu öllu væri mikilvæg. Hann tók ekki undir framkomnar hugmyndir um að ríkið mundi kaupa eyjuna Vigur, taldi ríkið lélegan eiganda að jörðum og fasteignum og nefndi dæmi þar um.
Kristján Jón Guðmundsson benti á þann mismun sem væri á því að Hafrannsóknarstofnun væri umsagnaraðili um afla sem veiddur væri í sjó, en nýlega hefði Alþingi samþykkt að Hafró færi með ákvörðunarvald þegar kæmi að því hve mikið mætti ala af fiski í sjókvíum. Ásmundur Friðriksson svaraði því til að oft þyrfti að gera málamiðlanir til að koma málum áfram og svo hefði verið þegar Hafrannsóknarstofnun hefði verið veitt ákvörðunarvald um hve mikið mætti ala af laxi í sjókvíum. Fram kom hjá Ásmundi og öðrum fundarmönnum ánægja með þær breytingar sem hefðu verið gerðar á standveiðikerfinu nýlega.

DEILA