ENDURÓ – FJALLAHJÓLAMÓT

Vestri hjólreiðar heldur seinna fjallahjólamót sumarsins næstkomandi laugardag. Í þetta skiptið er keppnin sett upp í Enduró formi og eru 82 keppendur skráðir til leiks. Þessi tegund fjallahjólreiða er vinsælust meðal félagsmanna Vestra.
Mótið snýst aðallega um að eiga góðan dag á fjöllum með skemmtilegu fólki. Dagleiðin er ca. 25 km og í ENDURÓ keppni er aðeins tímataka á hluta brautarinnar, það er að segja þeim hluta sem felur í sér mestu brekkurnar niður á við. En keppendur koma sér með eigin orku milli tímatökusvæða, t.d. með því að labba með hjólið upp á Hnífafjall og hjóla upp á Sandfellið. Keppnin er því töluvert púl ekki bara keppni í að láta sig renna niður brekkur.
Keppnin byrjar upp á Botnsheiði og er hjólað niður af heiðinni inn á fjallahjólaleið sem heitir Tungan og liggur með Tunguánni og yfir byrjendabrekkuna á skíðasvæðinu. Þaðan koma keppendur upp á Hnífafjall og hjóla niður af Hnífunum og í gegnum Síðuskóg. Eftir það er stefnan sett á Sandfellið og hjólað niður með Bunánni inn á gönguskíðasvæðið og þaðan niður Seljalandsmúlanum.
Notast er við þráðlausan tímatökubúnað og fá keppendur tímatökukubb á fingur sem þeir nota til að stimpla sig inn og út af tímatökusvæðunum. Lagt er upp með að fólk hjóli alltaf með einhverjum félaga, félagarnir stimpla sig inn í innstimplunar hliðin með smá millibili og hittast við útstimplunarhliðið.
Allur ágóði af mótinu fer í uppbyggingu á hjólreiðasvæðum en þar hafa sjálfboðaliðar unnið mikið og gott starf með stuðningi fyrirtækja eins og HG, Vífilfells og Dokkunnar og Hótel Ísafjarðar.
Keppnin er skemmtileg fyrir áhorfendur og væri gaman að sjá sem flesta á hliðarlínunni. Fyrstu keppendur ættu að vera koma niður að skíðaskálanum í Tungudal um 11:20. Örugglega er skemmtilegast að sjá keppendur fara yfir vaðið við Tunguána. Fyrstu keppendur eru áætlaði við Dyngju og Síðuskógi um 12 og þá eiga þeir eftir að koma sér upp á Sandfellið. Drykkjarstöð verður við gönguskíðaskálan á Seljalandsdal.
Upplýsingar verða á Instagram reikningi félagsins

DEILA