Maðurinn sem hjólaði í kringum Ísland og vildi umfjöllun í BB

Christian sem hætti á Bæjarins Bestu til að hjóla í kringum Ísland.

Það er mögulega ekki gott að vera útlendingur og biðja um umfjöllun um svaðilför um Ísland á reiðhjóli með sumartjald, þegar blaðamaðurinn situr fastur vegna snjóa og nýbúinn að skrifa um félaga sína sem lentu í snjóflóði. Það er nefnilega vel mögulegt að blaðamanninum og fyrrum björgunarsveitakonunni finnst það ekki jafn sniðugt og útlendingnum. Þannig var í samskiptum undirritaðs blaðamanns á BB og Christians frá Barcelona um síðustu helgi.

Christian sendi tölvupóst á BB með fyrirsögninni: „Ykkur finnst þetta áhugavert,“ og frásögn af því hvernig hann hafði ferðast um á hjóli í kringum Ísland í 22 daga, með þunnt tjald, ískalt og lendandi í allskonar kreisí veðri. Og eins og það hafi ekki verið nóg, skrifaði hann, þá gerði hann heimildamynd um sjálfan sig í leiðinni. „Skoðaðu myndbandið,“ skrifaði Christian, „ég vona að þér finnist það nógu áhugavert til að skrifa um það og birta.“

Ekki leist nú blaðamanni á. Enn einn útlendingurinn að fíflast utandyra, til þess eins að björgunarsveitirnar þurfi að sækja hann og svo vildi hann birtingu svo aðrir útlendingar gætu leikið þetta eftir. Svarið sem Christian fékk var svona frá geðvonda blaðamannnum:

„Kæri Christian. Sem fyrrum björgunarsveitakonu þá myndi ég segja að það væri einfaldlega mjög heimskulegt að fara í svona ferðalag án þess að vera með búnað við hæfi, líkt og gott tjald og hlý föt. Vissir þú að það deyja margir við að reyna að sanna eitthvað fyrir sjálfum sér og öðrum á ferðum í náttúru Íslands? Náttúran er ekki eitthvað til að leika sér að. Gott samt að heyra að þú komst heill til byggða.“

Geðvondi blaðamaðurinn reiknaði nú samt ekki með svarinu sem hún fékk til baka frá ævintýramanninum:

„Hæ og takk fyrir svarið. Þú hefur rétt fyrir þér. Ég las póstinn minn tvisvar yfir og hann er fremur heimskulegur. Ég gekk of langt í að gera ævintýrið dramatískt. Ég hef ferðast um Noreg og bjó í tjaldi í Svíþjóð í 6 mánuði. Þar er mun kaldara og ég var með sama búnað og hér á Íslandi og vissi að það yrði í lagi. Ég kannaði líka ávallt færð og veður og beið á tjaldsvæðum ef veðurspáin var slæm. Ferðalagið gekk ágætlega en eftir um 1000 kílómetra tók ég rútu til Reykjavíkur, vegna þess að ég var ekki með vetrardekk á hjólinu.“

Geðvondi blaðamaðurinn mælir með myndbandinu hans Christian, hann er greinilega ekki allur þar sem hann er séður.

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA