Áhersla lögð á hönnunar- og skipulagsvinnu í næstu fjárhagsáætlun

Skíðasvæðin eru notuð allt árið um kring.

Á bæjarráðsfundi í gær var lagður fram viðauki 15 við fjárhagsáætlun 2018. Viðaukinn varðar framtíðarskipulag útivistasvæðis í Skutulsfirði, frumhönnun skipulags við Seljalands-, Tungu og Dagverðardal og er þóknun ráðgjafa áætluð 2,5 milljón króna fyrir árið 2018. Þessari framkvæmd er mætt með tilfæringu innan framkvæmdaáætlunar. Áhrif viðaukans á rekstrarniðurstöður Ísafjarðarbæjar er 0 kr. Bæjarráð lagði til við bæjarstjórn að viðaukinn yrði samþykktur en BB fýsti að vita meira og heyrði í Daníel Jakobssyni, formanni bæjarráðs.

Daníel segir að í næstu fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar sé lögð töluverð áhersla á hönnunar- og skipulagsvinnu. Meðal annars framtíðarskipulag í kringum íþróttahúsið á Torfnesi og svo skipulagsvinnu í Tungudal, Seljalandsdal og heiðinni ofan Skutulsfjarðar auk stígakerfis. Fjármagnið kemur úr uppbyggingarsamningi sem gerður hafði verið við Skíðafélag Ísafjarðar, vegna alpagreinasvæðis í Tungudal. „Þegar þessi vinna fór af stað þá var ákveðið að bíða með þann uppbyggingarsamning og færa upphæðina frekar í þessa vinnu,“ segir Daníel og viðauki 15 snýst um það.

„Verkefnið sjálft snýr að því að skipuleggja notkun Tungudals og Seljalands til framtíðar. Þegar að skipulagið liggur fyrir er hægt að vinna minni verkefni sem falla þá að þessu skipulagi,“ segir Daníel í samtalið við BB. „Hvernig sjáum við til dæmis Tunguskóginn fyrir okkur? Hvar verða göngu-, hjóla- og hlaupastígar, hvar verður grillstaður, hvar verður hreystibraut eða leiktæki fyrir börn eða eldri? Hvernig fléttast þetta svo allt saman við íbúa skógarins, skógrækt og golf svo eitthvað sé nefnt.“ Daníel segir ennfremur að þau horfi til Kjarnaskógar á Akureyri sem fyrirmyndar.

Hann nefnir einnig að skíðasvæði Ísfirðinga séu óðum að verða útivistarsvæði allt árið um kring og þá til dæmis fyrir fjallahjólaiðkun. Hanna þurfi svæðið til að þjóna sem þörfum flestra greina útivistar og til framtíðar. „Hvernig sjáum við þetta fyrir okkur til næstu ára og áratuga og hvernig er hægt að búa til heilsársnotkun á þessum mannvirkjum.“

„Þegar skipulagið liggur fyrir þá er auðveldara að búta verkefnin niður og vinna að þessari framtíðarsýn með einu verkefni í einu. Ætlunin er að fá íslenska og bandaríska skipulagsaðila tli að koma að þessu eins og gert var á Akureyri. Kallað verður eftir sjónarmiðum íbúa, fyrirtækja og félagasamtaka í þessari vinnu.“

Daníel segir að næstu skref þar á eftir verði að gera það sama í öðrum þorpum, fjörðum og dölum bæjarins og tengja loks allt saman með stígakerfi. „Þannig að fólk geti farið á milli staða ekki bara á bíl heldur einnig gangandi, á skíðum, hjólandi, ríðandi eða á sleða.“

Sæbjörg

sfg@bb.is

DEILA