Vestri marði sigur gegn Hamri

Það þótti sæta tíðindum þegar Hamarsmenn fengu loksins dæmdar villur á sig. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

1. deildar lið Vestra í körfuknattleik karla háði góða baráttu við lið Hamars á Jakanum síðastliðinn föstudag. Hamar hafði yfirhöndina nánast allan fyrsta leikhluta og það var líkt og Vestramenn væru hálfsofandi og þeir máttu sín lítils gagnvart harðri vörn Hamars. Þegar leið á annan leikhluta fór blóðið þó að renna í Vestfirðingum og því hraðar sem leið á leikinn. Lokatölur urðu þær að Vestri var með 92 stig gegn 85 hjá Hamri og þeir réttmörðu því sigur.

Leikurinn var mjög spennandi þó Vestramenn hafi verið smá stund að komast í gang. Stigahæstur Ísfirðinga var André með 24 stig og 15 fráköst, þar næst var Nebojsa með 20 stig og 3 fráköst og loks Nemanja með 18 stig og að venju átti hann flest fráköstin eða 23.
Í liði Hamars var Everage langstigahæstur með 36 stig, enda átti Vestri í fullu fangi með að hafa hemil á þessum eldsnögga manni. Marko skoraði næstflestar körfur og var með 13 stig og þeir þriðju stigahæstu í liði Hamars voru þeir Geir Elías og Florijan með 11 stig hvor.

„Þetta var sannkallaður toppslagur við Hamar og þetta hafa verið mjög jöfn lið í toppbaráttunni í 1. deildinni,“ sagði Ingvi Gunnlaugsson í samtali við BB. „Við urðum fyrir mikilli blóðtöku í síðustu viku þegar Guðmundur Auðunn sleit sin í fingri því hann gat ekki spilað með okkur. Þessi leikur við Hamar var fyrsti leikurinn sem við spilum á móti liði á svipuðu leveli síðan við mættum Fjölni. Enda byrjaði leikurinn ekki vel og við náðum okkur ekki á ról fyrr en við lok fyrsta leikhluta.“

„Hamar náði að koma okkur á óvart og þeir voru með gott leikplan en þegar okkur óx ásmegin þá fór þetta að ganga hjá okkur. Þeir eru með sterkan leikmann frá Bandaríkjunum og aðalmálið hjá okkur var að passa að hinir næðu ekki að skjóta. En allt leikplanið gekk svo vel hjá okkur,“ sagði Ingvi sem var að vonum nokkuð sáttur þó engum á leiknum hefði dulist gremja hans og leikmanna Vestra í fyrsta leikhluta.

Yngvi segir að það sé góður gangur í Vestraliðinu. Stuðningur við liðið hafi einnig verið góður og gaman að því hvað heimamenn eru duglegir að mæta á leiki, ekki síst til þess að sjá heimamenn í liðinu spila. Hlutfallið milli aðkomumanna og heimafólks er nokkuð jafnt í Vestraliðinu og ungir leikmenn að koma sterkir inn á þessu tímabili.

Pallarnir voru fullir á Jakanum. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.
Baráttan var hörð allan tímann. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.
Vestri og Hamar eru jöfn lið í styrk. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.
Stuðningsmenn Vestra létu heyra vel í sér. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA