Tekur reglulega í höndina á rosknum mönnum á förnum vegi

Fimmtudaginn 29. nóvember næstkomandi mun hljómsveitin Moses Hightower vera með tónleika í Edinborgarhúsinu á Ísafirði. Einn hljómsveitarmeðlima Andri Ólafsson, er ættaður frá Tálknafirði. Auk þess að spila með Moses Hightower þá er hann í hljómsveitinni Secret Swing Society, stjórnað upptökum og útsetningum hjá Júníusi Meyvant og svo hefur hann einu sinni spilað með Villa Valla og hljómsveit í Edinborgar. „Það er minn helsti heiður á tónlistarsviðinu því þar er ótrúlegur músíkant á ferð,“ sagði Andri í samtali við BB.

Ættir Andra til Tálknafjarðar má rekja þannig að móðuramma hans, Svava Guðmundsdóttir, var ein af 17 Guðmundsbörnum frá Kvígindisfelli í Tálknafirði. „Þannig að ég á einhvern slurk af ættingjum á Suðurfjörðunum. Flest fluttu systkinin þó suður og ég tek reglulega í höndina á rosknum mönnum á förnum vegi á höfuðborgarsvæðinu sem ég sé á svipnum að eru ömmubræður mínir, þótt ég muni ekki hvað þeir heita og hvað þá að þeir viti deili á mér,“ segir Andri.

Hann lýsir hljómsveitinni Moses Hightower sem „ógæfumönnum sem fá útrás fyrir innbyrgða vandvirkni með því að gefa út plötur og spila fyrir fólk.“ Hann og Steingrímur gera textana saman en bæði þeir og tónlistin eru listaverk eins og sjá má á textanum Ellismellur hér að neðan, en hægt er að hlusta á lagið hér.

Að loknum lestri fréttanna
litgreini sokka og sameina:
Einn, tveir, áfram gakk!

Fylgist með fótabúnaði
í hans náttúrulega umhverfi
og sé að þeim fjölgar, stöku sokkunum.

Í grámann grannaskinnin falla eins og flís við rass,
fljúga ansi oft á Útvarp Saga class,
og fá sér af stút.
Og þegar öllu þeirra bauki er á botninn hvolft
blasir við að ekki gerist alltof oft
að þau kíki eitthvert út

og ég spyr mig:
Er ekki mál að linni?
Er ekki kominn tími til að skora gufuna á hólm?

Og sjá:
Vatteruð kona í kvartbuxum,
(hjarta, ertu fransbrauð?)
ég kikna í göngulimunum!
(fýsn, ertu hordauð?)
Ég sagði: „Kannski væri þjóðráð að við kíktum í
kaffibolla og mögulega kruðerí,
og rifjuðum upp gengna slóð?“

Hún sagði: „Á laugardögum líta barnabörnin við,
á mánudaginn læt ég skipta um mjaðmarlið
en annars er ég bara góð.“

Er ekki kominn tími til að tíminn komi til?
Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA