Stöndum saman Vestfirðir safna fyrir slökkviliðin

Nú hafa stelpurnar í Stöndum saman Vestfirðir hafið næstu söfnun. Þær óska eftir að stjórnendur slökkviliða á Hólmavík, Reykhólahreppi, Patreksfirði, Bíldudal, Tálknafirði, Bolungarvík og Súðavík setji sig í samband við þær. En þær hafa þegar náð sambandi við Ísafjarðarbæ.

„Nú erum við að hefja okkar 5 söfnun síðan við byrjuðum 2016, þessi söfnun er stærri en allar þær sem við höfum farið í hingað til,“ segir Steinunn Guðný Einarsdóttir í samtali við BB. „Nú reynir á að Vestfirðingar snúi bökum saman og leggist öll á eitt. Í þetta skiptið erum við að horfa til slökkviliðanna á öllum Vestfjörðum. Mörg þeirra eru því miður ekki nógu vel búin og við viljum reyna að bæta út því. Í þetta skiptið erum við að safna fyrir nýjum og vel útbúnum hjálmum fyrir slökkviliðin okkar.“

„Á Vestfjörðum eru um 10 slökkvilið sem sinna útköllum á mjög stórum svæðum. Núna leggjumst við öll á eitt og söfnum fyrir eins mörgum hjálmum og mögulegt er til að búa vel að þessum öflugu liðum. Við vitum að þetta er stórt verkefni en vonumst til að fá góð viðbrögð frá einstaklingum sem og fyrirtækjum,“ segir Steinunn.

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA