Rúm 3 tonn úr fyrstu söfnun af lífrænum úrgangi

Góð molta gefur dýrindis uppskeru. Mynd: Hildur Dagbjört.

Hann Jónas frá Gámaþjónustu Vestfjarða skrapp suður til Reykjavíkur á dögunum með raftæki og spilliefni og kom til baka með blandara sem á að nota í moltugerðina. Það er allt að komast á fulla ferð í moltugerðinni segir Gámaþjónustan og það mátti greinilega sjá líka á fundargerð frá Umhverfis- og framkvæmdanefnd Ísafjarðarbæjar frá gærdeginum.

Þar upplýsti umhverfisfulltrúi nefndina um stöðu mála og fulltrúi Gámaþjónustu Vestfjarða kom á fundinn. Fram kom í máli umhverfisfulltrúa og fulltrúa Gámaþjónustu Vestfjarða að 3.190 kg af lífrænum úrgangi hafi komið úr fyrstu söfnun, en áætlanir gera ráð fyrir að á ári hverju safnist milli 90 og 170 tonn. Fyrsti jarðgerðargámurinn af sex er kominn á Funa og söfnun og úrvinnsla fer vel af stað.
Íbúar Ísafjarðarbæjar eru greinilega að taka vel á móti ruslafötunni undir lífræna úrganginn og vonandi heldur þetta átak sem best áfram.

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA