Reiðhöllin komin vel á veg í Engidal

Ný reiðhöll í Engidal mun gjörbreyta starfssemi hestamanna. Mynd: Hjalti Karlsson.

Vel gengur að reisa reiðskemmu Hestamannafélagsins Hendingar í Engidal en verkið er að mestu unnið af Hendingarfélögum. Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri HSV, sagði í samtali við BB að Ísafjarðarbær og Hending hefðu loks náð samkomulagi á síðasta ári um bætur vegna þeirrar aðstöðu sem félagið missti árið 2008 þegar vinna hófst við Bolungarvíkurgöngin. „Tilkoma reiðskemmunnar mun hleypa miklu lífi í starf Hestamannafélagsins Hendingar. Félagið hefur búið við aðstöðleysi um langan tíma og engin vafi að með aðstöðusköpun kemur grundvöllur fyrir öflugt barna- og unglingastarf og annað félagsstarf,“ sagði Sigríður Lára.

Uppbyggingarsamningur milli Ísafjarðarbæjar og Hestamannafélagsins Hendingar var tekinn fyrir á bæjarráðsfundi Ísafjarðarbæjar 12. nóvember og bæjarstjóra falið að ræða við formann Hendingar á grundvelli umræðna á fundinum.

Þann 3. maí síðastliðinn var fjallað um Uppbyggingarsamninginn á bæjarstjórnarfundi en íþrótta- og tómstundanefnd Ísafjarðarbæjar hafði lagt fram drög að uppbyggingarsamningi við Hestamannafélagið Hendingu. Nefndin lagði til við bæjarstjórn að samþykkja drögin en þau voru svo lögð fyrir á bæjarstjórnarfundi fimmtudaginn 3. maí. Forseti bæjarstjórnar, Nanný Arna Guðmundsdóttir, lagði þá fram breytingartillögu að ósk minnihluta bæjarstjórnarinnar að: „Bæjarstjórn lýsir yfir vilja til að gerður verði uppbyggingarsamningur við Hestamannafélagið Hendingu vegna ársins 2018 með 3ja milljóna króna framlagi Ísafjarðarbæjar, í samræmi við framlagða tillögu, og að hann verði lagður fyrir bæjarráð ásamt nauðsynlegum viðauka við fjárhagsáætlun.“ Breytingartillagan var samþykkt 5-0 en fjórir sátu hjá. Málum lauk samt þannig að áframhaldandi viðræðum um uppbyggingarsamninginn var frestað fram yfir kosningar. Marinó Hákonarson, formaður Hendingar vissi það ekki fyrr en eftir á en málið var talið of eldfimt til umfjöllunar og ákvarðanatöku svona nálægt sveitarstjórnarkosningum, þrátt fyrir að þá væri eitt og hálft ár liðið síðan samningurinn varð til.

Marinó sagði einnig í viðtali við BB fyrr á árinu að áætlað hefði verið að klára reiðskemmuna 1. desember 2017 en ákveðið var að fresta því og klára frekar fyrir 1. desember 2018. Það virðist ætla að takast og Marinó sagði ennfremur: „Ég er sannfærður um að þetta muni gjörbreyta allri starfsemi og breyta okkar helstu áherslum í hestamennsku. Nú er nýliðið landsmót hestamanna og við gátum ekki tekið þátt í því af því það eru engar aðstæður hér til að uppfylla þau skilyrði sem þarf til að halda forkeppni. Við þurftum því að horfa bara á það í sjónvarpinu í staðinn í þetta skiptið. Þessi bygging mun breyta því að hluta til, en við þurfum auðvitað að fá reiðvellina inn líka.“

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA