Reglugerð um stefnumótandi áætlun um málefni sveitarfélaga í samráðsgátt

Súðavík. Mynd: Þorsteinn Haukur Þorsteinsson.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur birt til umsagnar drög að reglugerð um gerð stefnumótandi áætlunar ríkisins um málefni sveitarfélaga en gerð slíkrar áætlunar er nýmæli.

Í reglugerðinni er kveðið á um að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra leggi fram tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaga fyrir Alþingi, að minnsta kosti á þriggja ára fresti til fimmtán ára í senn. Í stefnumótandi áætlun skal jafnframt mörkuð aðgerðaáætlun til næstu fimm ára. Ákvæði um gerð slíkrar áætlunar voru færð í 2. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, með 10. gr. laga nr. 53/2018.

Stefnumótun ríkisins á þessu sviði er nýmæli og felur í sér að gerð verður langtímaáætlun í takt við aðra stefnumótun og áætlanagerð á verksviði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, þ.e. samgönguáætlun, fjarskiptaáætlun og byggðaáætlun/sóknaráætlanir. Undirbúningur áætlunarinnar skal vera í höndum fjögurra manna starfshóps sem ráðherra skipar en þar af eru tveir fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Sveitastjórnarlög mæla fyrir um að samráð skuli hafa við önnur ráðuneyti, sveitarfélög og Samband íslenskra sveitarfélaga við gerð stefnumótandi áætlunar um málefni sveitarfélaga. Þá skal haft samráð við hagsmunaaðila eftir þörfum. Einnig skal horfa til stefnumörkunar sem fram kemur í byggðaáætlun og sóknaráætlunum sem gerðar eru samkvæmt lögum um byggðaáætlun og sóknaráætlanir. Loks er almenningi frjálst að koma að sjónarmiðum sínum og athugasemdum.

Frestur til að senda inn umsögn um reglugerðardrögin er til og með 13. desember nk.

Hér má lesa drögin að reglugerðinni.

Sæbjörg

sfg@bb.is

DEILA