Nýtt veftímarit í fæðingu á Patreksfirði

Nú er hafin söfnun á Karolina Fund fyrir nýju veftímariti en upphafsstöðvar þess eru staðsettar á Patreksfirði. Það eru þau Julie Gasiglia og Aron Guðmundsson sem standa að baki tímaritinu, en Aron var blaðamaður á BB.is til skamms tíma. Julie og Aron eru líka fólkið á bak við Húsið-Creative Space á Patreksfirði, þar sem ýmsar uppákomur eru reglulega sem og listsýningar.

Nýja tímaritið hefur fengið nafnið Úr Vör. Þar mun verða fjallað um hvernig fólk á Vestfjörðum og annarsstaðar notar skapandi aðferðir til að leita lausna.
Forsvarsmenn tímaritsins vilja: „Varpa ljósi á allt hið frábæra sem fram fer á landsbyggðinni varðandi nýsköpun, list, menningu og frumkvöðlastarf.“

Í lýsingu á verkefninu segir að Úr Vör sé ferskur miðill með puttann á púlsinum. Hann sé aðgengilegur og aðlaðandi, höfði til allra og þar verði gæði metin umfram magn. Ætlunin er að efla Vestfirði og miðla málum á góðan hátt; hugsjón sé tekin fram yfir gróðasjónarmið.

Þau Aron og Julie áætla að daglega verði nýtt efni á síðum vefsins. Þá verði birt aðsend grein í hverri viku og ráðnir verði fjórir fastir lausapennar, auk reglulegra ritstjórnargreinar en Aron Guðmundsson er ritstjóri og ábyrgðarmaður vefsins. Það verða viðtöl um hverja helgi og mikil vinna lögð í þau, gæði í ljósmyndum og nokkrir möguleikar í boði fyrir þau sem vilja kaupa auglýsingar. Áætluð viðfangsefni vefsins verða viðburðir, menning og listir, íþróttir og samfélag.

Ritstjórn á að vera samansett af þremur aðilum frá þremur svæðum Vestfjarða en sú mönnun er ekki fullunnin. Þá verður fljótlega gengið frá ráðningu fjögurra lausapenna eins og segir á vefnum. Stofnkostnaður Úr Vör er reiknaður 306.000 krónur og rekstrarkostnaður 378.000 krónur mánaðarlega. Eigendur ætla þess vegna að um 1.480.000 þurfi til að ýta Úr Vör, úr vör.

Innkoma vefsins á að koma frá auglýsingatekjum og sölu á umfjöllun, auk þess sem áhugasamir geta styrkt verkefnið á Karolina Fund eins og áður segir. Þó nokkrir hafa skráð sig sem stuðningsmenn þar, bæði þekkt fólk úr listageira Vestfjarða en einnig Jón Kaldal sem er mörgum kunnur sem forsvarsmaður Icelandic Wildlife fund.

Sæbjörg

sfg@bb.is

DEILA