Lýðskrum

Gunnar Þórðarson.

Benedikt Jóhannsson skrifar grein í Morgunblaðið 20. nóvember s.l. þar sem hann fjallar um lýðskrum. Nú ber ég mikla virðingu fyrir Benedikt og er honum sammála í einu og öllu sem fram kemur í pistlinum. Svo vitnað sé í fyrrverandi fjármálaráðherra þá lýsir hann lýðskrumaranum í grein sinni með eftirfarandi hætti:

• Hann finnur sér óvin
• Vekur ótta
• Skeytir ekki um sannleikann
• Sakar andstæðinginn um drottinsvik

Einnig að lýðskrumarinn kunni ekki að skammast sín og biðjist aldrei afsökunar og ráðist á þá sem eru honum ósammála.

Þetta eru orð í tíma töluð hjá Benedikt Jóhannessyni, fátt sem fer meira í taugarnar á undirrituðum en lýðskrum í íslenskum stjórnmálum. Tökum dæmi um efni sem er höfundi er hugleikið:

Íslenskur sjávarútvegur spilar í meistaradeild greinarinnar á heimsvísu og hefur trónað á toppnum um áraraðir. Það veitir honum einstakt samkeppnisforskot og gefur greininni möguleika á að skila mikilli verðmætsköpun fyrir íslenskt efnahagslíf.

Sjávarútvegur hefur ekki alltaf gengið svona vel og fram á níunda áratug síðustu aldar einkenndist íslensk efnahagslíf af gengisfellingum til að leysa vanda útflutningsgreina (sjávarútvegsins), þar sem vandanum var velt yfir á almenning með launalækkunum (gengisfellingum). Almenningur þurfti að bera þann bagga með lakari lífskjörum þar sem launahækkanir brunnu upp á báli verðbólgu og lífeyrissjóðir gufuðu upp. En hvernig sneru Íslendingar þessar óheillaþróun við þar sem landframleiðsla frá árinu 1980 á mann fór úr 3,9 milljónum króna á núvirði í 7,7 milljónum króna? Grundvöllur þessa árangurs voru breytingar í sjávarútvegi þar sem eftirtalin atriði skiptu mestu máli:

Útfærsla landhelginnar var ein af meginstoðum árangurs. Enginn möguleiki var að breyta vörn í sókn án yfirráða Íslendinga yfir auðlindinni. En það dugði ekki til þar sem óskynsamir stjórnmálamenn stóðu fyrir skuttogaravæðingu þar togara var komið fyrir í hverjum firði og vík. Svo var komið í upphafi níunda áratugarins að útgerðin var enn og aftur komin að fótum fram, sóknargeta flotans (með 100 skuttogurum) var tvöföld það sem fiskistofnar gátu gefið af sér. Hvað var þá til ráða? Reynt var að draga úr veiðum með sóknarkerfi sem dregur ekki úr sóknargetu en skapar lélega nýtingu skipakostsins þar sem kapp við veiðar ræður frekar en forsjá.

Stjórnvöld settu því á kvótakerfi og skilaboðin til útgerðar voru; Þið fáið aðgang að auðlindinni miðað við veiðar síðustu fjögurra ára, en þið takið sársaukann við að skera niður flotann og auka framleiðni. Með kvótakerfinu hefur öryggi sjómanna aukist mikið, enda sókn í vondum veðrum dregist mikið saman. Til að bæta kerfið enn frekar var framsal á veiðiheimildum sett í lög í upphafi tíunda áratugarins. Þá fyrst fóru hjólin að snúast til hins betra og vænkaðist nú hagur Strympu, sem var undirstaða þess að ná tökum á hagkerfinu og stöðugleika krónunnar. Ekki hefði verið hægt að koma Þjóðarsáttinni á án þess að útflutningsgreinar stæðu keikar í þeim slag til að ná niður óðaverðbólgu.

Fleiri atriði skiptu sköpun í velgengninni og ber þar fyrst að nefna að ráðamenn ákváðu að leggja tillögur vísindamanna Hafró (veiðiráðgjöf) sem grunn að sókn í fiskistofna. Veiðiregla var sett á mikilvægustu stofna og sá kaleikur tekinn frá stjórnmálamönnum að ákveða sókn, en eðli þeirra var að halda öllum ánægðum með meiri veiði. Stjórnmálamenn geta nú ekki ákveðið sókn í fiskistofna frekar en að ákveða stýrivexti!

En það var fleira sem máli skipti eins og stofnun samkeppnissjóða, AVS og Rannís, sem hafa verið bakhjarlar rannsóknar og þróunar í íslenskum sjávarútveg og gert hann þann tæknivæddasta í heimi og stuðlað að aukinni verðmætasköpun. Með samvinnu útgerðar, fiskvinnslu, rannsóknarstofnana og háskólasamfélagsins hefur náðst ótrúlegur árangur í bættum gæðum sjávarfangs og gert mögulegt að þróa vöru á heimsmælikvarða úr íslensku hráefni. Mikil áhersla er lögð á nýtingu aukaafurða og skapa verðmæti úr aukaafurðum sem áður var hent. Útflutningur á ferskum fiski væri ekki mögulegur án mikillar þekkingar, en sú vara hefur tvöfaldað verðmæti þorsks undanfarin ár. Grundvöllur fyrir þeirri framleiðslu eru mikil gæði og ekki síður afhendingaröryggi, sem kallar á öguð vinnubrögð og mikla þekkingu. Engin leið væri t.d. að afhenda þá vöru allt árið um kring án kvótakerfis, en afhendingaröryggi er grundvöllur á markaði. Norðmenn t.d. taka meginþorra þorskveiði sinnar í mars og apríl, en veiða lítið restina af árinu. Norskur sjávarútvegur er auðlindadrifinn á meðan íslenskur sjávarútvegur er hins vegar markaðsdrifinn. Við förum til viðskiptavinarins og spyrjum hvað hann vill og fetum okkur svo niður virðiskeðjuna, alla leið til veiða, til að tryggja rétta vöru. Allt þetta hefur gert það að íslenskur sjávarútvegur er heimsmeistari og skilar ótrúlegri verðmætasköpun fyrir samfélagið. Það var því ekki úr takti að stjórnvöld hafi 2002 sett veiðigjald á greinina. Rökin voru þessi; við settum leikreglur sem hafa nýst sjávarútvegi svo vel að ríkið vill fá hlut af umfram hagnaði til að greiða kostnað ríkisins af greininni (Hafró, Fiskstofa o.fl.)

En hvað kemur þetta lýðskrumi við? Í gegnum tíðina hafa margir barist gegn þessari jákvæðu þróun, með odd og eggi. Nú væri hægt að kenna fáfræði um og margir hafi ekki vitað betur. Það má fyrirgefa slíkt, en það gengur ekki upp fyrir fólk sem situr á Alþingi og notar ræðustól þar til að halda fram rökleysu og jafnvel notað uppnefni og níð um sjávarútveg og þá sem þar starfa. Heilu stjórnmálaflokkarnir hafa verið stofnaðir til að kynda undir óánægju almennings við þessa jákvæðu þróun. Nú verður maður að trúa því að fólk sem kosið er á þing og tjái sig um um þessa mikilvægustu atvinnugrein landsmanna, setji sig inn í málin og viti hvað það er að tala um! Nema að þetta sé allt saman lýðskrum, þeir finni sér óvin sem er kvótagreifinn, veki ótta um að hann sé að ræna almenning sameiginlegri auðlind og hafa fjármuni af þjóðinni. Lýðskrumarinn hugar aldrei um sannleikann og sakar þá útgerðarmanninn um drottinsvik.

Ég treysti Benedikt Jóhannessyni vel en hann hefur hins vegar ekki tjáð sig mikið um sjávarútveg, hans yfirburðarþekking liggur annarsstaðar. Það sama verður ekki sagt um núverandi formann Viðreisnar sem hefur meðal annars gengt stöðu sjávarútvegsráðherra. Hún hikar ekki við að halda fram staðleysum um atvinnugreinina, og talar þar örugglega þvert á það sem hún veit. Það þarf ekki mikinn hagfræðing til að sjá að uppboð á aflaheimildum gengur aldrei upp. Lítið mál er að kynna sér það og líta til reynslu þeirra þjóða sem hafa reynt þá helstefnu. Undirritaður er frjálshyggjumaður en gerir sér grein fyrir að fullkomlega frjáls markaður gengur ekki alltaf upp (t.a.m. harmar almennings), Sem sjávarútvegsráðherra hafði núverandi formaður Viðreisnar í hótunum, um að hækka enn frekar veiðigjöld, við fyrirtæki sem stóð í hagræðingu á sínum rekstri. Hún hefur ítrekað talað niður sjávarútveginn og þá sem þar starfa og lítur á veiðigjöld sem tekjustofn fyrir ríkissjóð. Hvort greinin standi undir því og viðhaldi samkeppnisforskoti sínu virðist engu máli skipta.

Viðreisn var stofnuð af fólki með borgaraleg sjónarmið til að sækja um aðild að ESB. Sjálfstæðisflokkurinn hrakti marga frjálslynda kjósendur þangað inn, sem trúa á markaðshagkerfi og frjáls viðskipti milli aðila og landa. Eftir heimskreppuna í lok síðasta áratugs var ljóst að slík umræða átti ekki upp á pallborðið hjá kjósendum. Hvað var þá til ráða fyrir Viðreisn? Sækja á gamlar slóðir og hræða þjóðina með grýlunni um kvótagreifana?
Það er aðeins eitt nafn til yfir slíkt; lýðskrum.

Gunnar Þórðarson

DEILA