Hvað er í vatninu á Ströndum?

Landsþekktir dansarar og söngvarar lögðu leið sína í Braggann á Hólmavík á laugardag. Mynd: Dagrún Ósk.

Stundum berast tilkynningar þess efnis frá sveitarfélögum að sjóða þurfi allt neysluvatn. Nú má spyrja sig hvort það sé alltaf gert á Ströndum eða hvort fólk sé einfaldlega svo frjálst þar í sjálfu sér að það þorir að koma fram og til dyranna eins og það er klætt. Eða kannski eru tískubúðirnar á Hólmavík bara öðruvísi en annarsstaðar því þar eru trendsetterar á öllum hornum.

Um síðustu helgi var haldin þar Karókí keppni mikil. Skúli Gautason skipulagði viðburðinn, enda dugir ekkert annað en menningarfulltrúa Vestfjarða í þess konar efni þegar stórsöngvarar á Ströndum stíga á svið. 26 manns skráðu sig til leiks og sáu og sigruðu þó Íris hafi borið sigur úr býtum. Svo vel var sungið í Bragganum þetta kvöld að nærstaddir Skagfirðingar veltu því jafnvel fyrir sér að skammast sín. Kynnar voru Jón Jónsson, Jón Jónsson og Jón Jónsson, Benedikt Jónsson hljóðmaður sá um að það heyrðist í þeim sem fólk vildi hlusta á og allt starfsfólk Cafe Riis lagði sitt af mörkum svo viðburðurinn yrði sem skemmtilegastur.

Meðfylgjandi myndir tók Dagrún Jónsdóttir og þær eru ekki birtar með hennar leyfi heldur Jóns Jónssonar. Hafi einhver velt fyrir sér hvar er gaman að lifa þá þarf það ekki lengur. Staðurinn er Hólmavík.

Sæbjörg

sfg@bb.is

DEILA