Hugguleg aðventuhelgi framundan

Það er mikil prýði að þessum jólatrjám.

Það þarf enginn að láta sér leiðast þessa helgina, nú loksins þegar snjórinn er kominn. Á morgun laugardag verður til að mynda hægt að fara á Landvættablót á Silfurtorgi klukkan 18 og skella sér í kaffi og kakó á Heimabyggð á eftir. Vilji fólk kíkja á Heimabyggð fyrir blótið þá verður þar dýrindis jólamarkaður allan daginn.

Á Þingeyri klukkan 16 á morgun verða tónleikar í kirkjunni með KK og Ellen Kristjánsdóttur. Á Flateyri verður svo hægt að fara á Bryggjukaffi klukkan 17 og læra að baka sýrlenskt brauð með nýjustu Flateyringunum.

Að venju fer einnig að líða að því að jólaljósin verða tendruð á jólatrjám Ísafjarðarbæjar. Það verður gert með viðhöfn á Þingeyri 1. desember, Flateyri 2. desember, Ísafirði 8. desember og Suðureyri 9. desember. Á þremur síðastnefndu stöðunum verða ljósin kveikt klukkan 16.00, en dagskráin verður frábrugðin á Þingeyri á 100 ára afmæli fullveldisins. Þar hefst dagskrá með fullveldiskaffi og tónleikum Sunnukórsins í félagsheimilinu á staðnum milli klukkan 14.30 og 16.00. Þá verður gert hlé vegna tónleika KK og Ellenar í Þingeyrarkirkju, en ljósin verða svo kveikt á trénu klukkan 17.30. Að lokum má benda á að áður en dagskrá hefst á Þingeyri, eða klukkan 13, verða fyrirlestrar í Safnahúsinu á Ísafirði í tilefni af fullveldisafmælinu.

Ljós hafa þegar verið kveikt á sumum jólatrjám í Ísafjarðarbæ, það er segja járn-jólatrjánum sem starfsmenn þjónustumiðstöðvar bæjarins hafa smíðað síðustu ár. Matthildur Ásta Hauksdóttir garðyrkjufulltrúi fékk hugmyndina að járntrjánum fyrir nokkrum árum og hafa hún og aðrir starfsmenn þjónustumiðstöðvar unnið að smíði þeirra milli annarra verka síðan þá.
Járntré eru nú staðsett við innkomu að Suðureyri, Flateyri, Þingeyri og Hnífsdal. Þá eru þrjú tré á Ísafirði; við Seljaland, hringtorg við Torfnes og á Austurvelli.

Sæbjörg

sfg@bb.is

DEILA