Heimabyggð var full á útgáfuteiti Eiríks Arnar

Eiríkur Örn les upp úr Hans Blævi. Mynd: Steingrímur Rúnar Guðmundsson.

Heimabyggð opnaði á Ísafirði í síðustu viku og Hans Blær kom út nokkru á undan. Heimabyggð er dásemdar kaffihús og Hans Blær er nýjasta skáldverk Eiríks Arnar Norðdahl. Húsið og verkið eru miklar andstæður að mörgu leyti, annað hlýtt og hitt ekki, en þetta fór þó vel saman á laugardagskvöldið þegar Eiríkur Örn hélt útgáfuteiti fyrir Hans Blævi. Heimabyggð fylltist fljótlega og skáldið mátti hafa sig allan við að skjótast inn og út, upp og niður tröppur, til að bæta við stólum fyrir skáldþyrsta Vestfirðinga. Forlagið bauð upp á Dokkuna, svo bragð var að og vertarnir suðu saman ótrúlegar veitingar úr hveiti og súrdeigi. Veðrið var ágætt og allt var prýðilegt.

En þó að Eiríkur sé að landsfrægt og heimsfrægt skáld þá hlýtur að vera öðruvísi tilfinning að lesa upp úr verki fyrir sína nánustu og nágranna í stað menningarvita annarsstaðar?

„Mér fannst bara fínt að lesa upp úr henni – og gaman, þótt ég væri nervus. Það var erfiðara að svara spurningum,“ sagði Eiríkur þegar BB innti hann eftir þessu. „Kosturinn við að vera rithöfundur er að maður hefur alltaf tíma til að velta fyrir sér hlutunum áður en maður svarar þeim – maður þarf aldrei að vera spontant. Nema einmitt þegar maður þarf að sitja á sviði og svara því til hvað maður hafi eiginlega verið að meina, þá þarf maður að vera spontant og bulla eitthvað. Þá guð veit hvað maður var eiginlega að meina.“

“ Bókmenntir eru einhvern veginn skrifaðar á innsæi, í rólegheitunum og gerast bara. En fyrst og fremst var auðvitað skemmtilegt að fá að hanga með öllu skemmtilegasta fólkinu í bæjarfélaginu og drekka besta bjórinn á landinu á fallegasta kaffihúsinu.“

Sæbjörg

sfg@bb.is

DEILA