Fréttir úr Strandabyggð

Regnbogi yfir Hólmavík. Mynd: Jón Halldórsson.

Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkti á sveitarstjórnarfundi fyrr í mánuðinum að taka 19.000.000 krónur að láni hjá Lánasjóði sveitarfélaga. Lokagjalddagi lánsins er 2034 og til tryggingar því, uppgreiðslugjalds auk vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar, standa tekjur sveitarfélagsins, eða útsvarstekjur og framlög til sveitarfélagsins úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Strandabyggð tekur þetta lán til að fjármagna kaup á nýjum slökkvibíl, endurbætur við grunnskóla og íþróttahúsi, hönnun á götum og opnum svæðum og lagningu ljósleiðara. Lagning ljósleiðara telst sem verkefni sem hefur almenna efnahagslega þýðingu.

Þá voru ályktanir frá haustþingi Fjórðungssamband Vestfjarða lagðar fram og áréttað mikilvægi þess að koma innstrandarvegi nr 68, Heydalsá-Þorpar, aftur inn á vegaáætlun. Sveitarstjóra var falið að fylgja málinu eftir gagnvart stjórnvöldum.

Á fundinum gerði Salbjörg Engilbertsdóttir einnig grein fyrir starfssemi í flugstöðinni. Rætt um hver skuli vera umsjónarmaður flugstöðvarinnar og hvar í stjórnskipulagi Strandabyggðar húsið skuli vera. Fram kom sú skoðun að umsjón með húsinu væri best fyrir komið hjá umsjónaraðila félagsheimilis. Bent var á að gera þurfi gjaldskrá fyrir húsið. Samþykkt var einróma að vísa málinu til TÍM nefndar, sem skyldi skilgreina notkun hússins og móta tillögur.

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA