Félagsheimilið var fullt þegar haldið var upp á sjálfstæði Póllands

Yfir 400 manns lögðu leið sína í Félagsheimilið á Patreksfirði í gær til að fagna því að 100 ár voru liðin frá því að Pólland fékk sjálfstæði. Það var Pólenía, samfélag Pólverja á sunnanverðum Vestfjörðum sem bauð í samkvæðið og allir voru velkomnir. Kökuborðin voru með eindæmum glæsileg og svo hlaðin, að jafnvel þó forsvarsfólk Póleníu hefði átt von á um 200 manns og Pólverjar í Vesturbyggð telji um 160 manns en yfir 400 hafi komið í veisluna, þá var samt nóg af kökum eftir svo margir gátu tekið með sér í vinnuna í morgun.

Á hátíðinni var farið með ljóð, sungnir baráttusöngvar og sagt frá sögu Póllands. Mateusz Kożuch sagði glaður í samtali við BB að þetta hefði byrjað mjög skemmtilega því dagskráin átti að byrja klukkan 15 en þá hefðu aðeins um 50 manns verið mætt. Svo fimmtán mínútum síðar „bara hrúgaðist alveg fullt af fólki inn og gátum ekki byrjað dagskránna strax því það þurfti að finna pláss og sæti fyrir alla.“

Veislan var mjög glæsileg að hans sögn og alveg örugglega veitingar fyrir 200 persónur í viðbót. Um kvöldið var kvikmyndin Katyn sýnd í SKjaldborgarbíó en þangað mættu færri, enda er myndin ekki við hæfi allra. „Myndin er mjög góð,“ sagði Mateusz „en fremur ógeðsleg. En þar er bara verið að sýna það sem satt er, því það er verið að segja frá fjöldamorðum sem framin voru eftir síðari heimsstyrjöld. Það voru gerðar tilraunir til að breyta sögunni og ef fólk sagði frá morðunum á þessum tíma þá var það bara myrt. Og þarna er bara verið að segja sannleikann.“

Meðfylgjandi myndir af samkomunni voru teknar af Marek Chomiak og við óskum Pólverjum til hamingju með gærdaginn.

Sæbjörg

sfg@bb.is

DEILA