Af hverju flutti ég vestur?

Gunnþórunn Bender.

Í dag eru rúmlega 10 ár síðan ég kom fyrst í heimsókn til Patreksfjarðar en þá átti ég svo sannarlega ekki von á því að ég ætti eftir að setjast hér að, eignast hús, börn og verða hluti af samfélaginu. Á þeim tíma hafði ég verið búsett í mörg ár erlendis, fyrst í námi en síðan starfandi sem fararstjóri fyrir íslenska ferðaskrifstofu. Ég var búsett á Spáni á sumrin, í Karíbahafinu á veturna og í austur og mið Evrópu á haustin og vorin. Ég er fædd og uppalin í Reykjavík og hef alltaf verið mikið borgarbarn. Mér leið alltaf best í stórborgum þar sem ég gat valið á milli veitingastaða og verslana, týnst inni í mannfjöldanum og fengið mér hamborgara um miðja nótt ef mig langaði til. Á þeim tíma hefði ég ekki einu sinni geta hugsað mér að setjast að í Hafnarfirði, því stærri sem staðurinn var, því betra. Eftir nokkur ár í fararstjórn var ég þó orðin ansi góð í að aðlagast hinum ýmsu stöðum og aðstæðum, ein eða með gott samstarfsfólk í kringum mig. Í apríl 2008 var ég svo í fríi á Íslandi þegar ég hitti mann sem átti eftir að hafa mikil áhrif á hvernig líf mitt átti eftir að þróast. Hann er maðurinn minn í dag. Hann heitir Páll Heiðar og er fæddur og uppalinn á Patreksfirði og hefur rekið bifvélaverkstæði á staðnum frá árinu 2001.

Um haustið var ég farin að huga að því að skipta um vettvang og flytja heim þar sem ástin var farin að toga hressilega í mig. Ég var þó byrjuð að undirbúa mig til að fara á nýjan áfangastað yfir veturinn, Barbados, í Karíbahafinu þegar hrunið skellur á og Geir H. Haarde biður Guð að blessa Ísland. Skyndilega er ákveðið að hætta við þennan nýja áfrangastað, ég gat að vísu fengið vinnu á öðrum áfrangastöðum en á þessum tímapunkti var ég tilbúin að breyta til, enda komin í samband á Íslandi. Ég ákvað að setjast á skólabekk og ná mér í meistaragráðu í Alþjóðasamskiptum við Háskóla Íslands. Eftir fyrstu önnina tek ég ákvörðun um að taka námið í fjarnámi og vera búsett á Patreksfirði. Lengi leit ég nú ekki svo á að ég væri sest að á Patreksfirði þar sem ég tók alltaf ferðir af og til, flakkaði mikið vegna námsins og vinnunnar og fór síðan að starfa sem flugfreyja og þá kom ég og fór. Þegar drengurinn okkar kom svo í heiminn 2011 neyddist ég til að hægja á mér. Eftir fæðingarorlof þurfti ég að finna mér vinnu og var ekki um auðugan garð að gresja því ég gerði kröfur um starf sem félli að minni menntun og áhugasviði. Á þessum tíma var litla eða enga afþreyingju fyrir ferðamenn að finna á svæðinu og tóku ég og tveir aðrir okkur saman og stofnðum afþreyingarfyrirtækið Westfjords Adventures. Í dag starfa ég sem framkvæmdastjóri hjá fyrirtækinu og er í krefjandi, fjölbreyttu og ótrúlega skemmtilegu starfi. Við keyptum húsið sem maðurinn minn ólst upp í og gerðum það upp eins og við vildum hafa það. Hér er nefnilega hægt að eignast góða eign án þess að skuldsetja sig í botn og geta ekki leyft sér nokkurn skapaðan hlut það sem eftir er ævinnar.

Í dag eigum við tvö börn, annað í skóla en hitt í leikskóla. Patreksfjörður er frábær staður til að ala upp börn. Það tekur eina mínútu að koma börnunum í skólann og aðra fyrir mig til að fara til vinnu. Við spörum því mikinn tíma í að keyra á milli staða sem við getum notað saman í staðinn til að gera eitthvað skemmtilegt. Hér er mikil náttúrufegurð hvert sem litið er og ótrúlegar gönguleiðir allt í kring. Hér býr einstaklega gott fólk og börnin vilja hvergi annars staðar vera. Þó svo að ég sakni oft fjölskyldu og vina úr bænum þá hef ég í gegnum árin lært að meta alla þá kosti við að búa úti á landi. Enn þann dag í dag skil ég ekki hvernig maðurinn minn fór að því að fá mig með sér út á land en ég sé ekki eftir því að hafa látið til leiðast.

Ég skora á vinkonu mína Lilju Sigurðardóttur að taka við keflinu.

Gunnþórunn Bender

DEILA