107 umsóknir bárust í Uppbyggingarsjóð

Elfar Logi í hlutverki Einars Guðfinnssonar. en Kómedíuleikhúsið hefur hlotið styrki úr Uppbygginarsjóði. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Frestur til að skila umsóknum í Uppbyggingarsjóð Vestfjarða rann út síðastliðinn mánudag. Að þessu sinni bárust 107 umsóknir sem eru heldur fleiri en á síðasta ári, að sögn Skúla Gautasonar, menningarfulltrúa Vestfjarða.

Hann segir ennfremur að heildarupphæð styrkbeiðna séu 189 mkr fyrir verkefni með heildarkostnað upp á 696 mkr. Sótt hafi verið um styrki frá 145.000 kr upp í 16.000.000 krónur. Þar af voru umsóknir um stofn- og rekstrarstyrki voru 7 talsins með 28,3 mkr í heildarupphæð. Menningarstyrkumsóknir voru 62 og heildarupphæðin 65,9 mkr. Þá sóttu 38 um styrki fyrir atvinnuþróun og nýsköpun fyrir samtals 94,9 mkr.

„Til úthlutunar eru 63 miljónir króna. Þar af hefur þegar verið ráðstafað 8,9 mkr til verkefna sem standa lengur en eitt ár,“ segir Skúli í svari við fyrirspurn BB.

Potturinn skiptist þannig að í stærri verkefni þar sem styrkirnir eru yfir einni og hálfri milljón króna eru 25 milljónir. Það rennur óskipt á milli nýsköpunar- og atvinnuþróunarverkefna og menningarverkefna.

Í minni verkefni af sama toga eru áætlaðar 19 milljónir og stofn- og rekstrarstyrkir til menningarstofnana eru einnig ætlaðar 19 milljónir. 8,9 milljónir eru eyrnamerktar langtímaverkefnum frá fyrri árum og þar af eru 7,7 milljónir fyrir 3 stofn- og rekstrarstyrki og 1 atvinnuþróunar- og nýsköpunarstyrkur sem fær 1,2 milljónir.

„Úthlutunarnefnd tekur nú til starfa og fer yfir allar umsóknir. Reiknað er með því að niðurstöður liggi fyrir í byrjun desember,“ segir Skúli.

Sæbjörg

sfg@bb.is

DEILA