Vilja lengja opnunartíma sundlauganna

Sundlaugar eru félagsmiðstöðvar dreifbýlisins.

Á 424. fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar var tekin fyrir tillaga Í-listans um að opnunartími sundlauga í Ísafjarðarbæ verði endurskoðaður. Í fundagerðinni segir: „Opnunartími sundlauga var skertur fyrir þónokkrum árum. Það var gert í sparnaðarskyni og vegna þess að aðsókn í sumar laugar var frekar dræm. Nú er tilefni til að endurskoða þá ákvörðun. Íbúum er að fjölga og Ísafjarðarbær orðið heilsueflandi samfélag. Í-listinn leggur áherslu á að samráð verði haft við hverfisráð og starfsmenn íþróttamannvirkja til að meta þörf fyrir lengdan opnunartíma, auk þess að tillagan verði rædd í íþrótta- og tómstundanefnd.“

Ýmsir tóku til máls til að taka jákvætt undir þessa tillögu. Þeirra á meðal voru Sif Huld Albertsdóttir, sem sagði að verið væri að gerð nýrrar íþrótta – og tómstundastefnu, og umræða um þessi mál hefðu komið upp á opnum fundum sem haldnir hefðu verið um stefnuna. Þá hefði einnig verið rætt um á opnunartíma líkamsræktarstöðvanna sem væru oftar en ekki samhangandi við sundlaugarnar. Hún sagði ennfremur: „Opnunartímar sundlauga þurfa að vera í stöðugri endurskoðun svo ég fagna þessari umræðu.“

Guðmundur Gunnarsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar sagði að þessi mál hefðu verið í skoðun og ef litið væri á þróun opnunartíma síðustu 10 ára þá hefði hann í raun aukist sumsstaðar á þessu tímabili. Verið væri þó að athuga hvort ekki væri til dæmis hægt að hafa sundlaugina á Þingeyri opna á kvöldin til að koma til móts við starfsfólk Dýrafjarðarganga.

Arna Lára sagðist vilja fylgja þessari tillögu úr hlaði fyrir hönd Í-listans og sagði: „Þessi tillaga skýrir sig að miklu leyti sjálf en þetta kostar peninga og það þarf að vera hluti af þeirri umræðu sem tillagan hlýtur í íþrótta- og tómstundanefnd. En ég held það sé kominn tími til að endurskoða þessa ákvörðun. Það er bara opið 5 daga í viku á Flateyri, lokað á mánudögum og föstudögum en þangað fluttust 25 ungmenni í haust sem myndu kannski vilja nýta sér aukinn opnunartíma. Á Þingeyri er líka lokað á laugardögum sem er alveg ótrúlegt þegar allir eru í fríi og það er bara opið á milli kl 8 og 10 á föstudagsmorgnum. Það var gert vegna þess að mig minnir að eldri borgarar á Þingeyri fara í sund þá. En við erum að horfa á aðeins öðruvísi tíma núna og þarfir fólks eru öðruvísi en þær voru. Þessi skerti opnunartími sem við fórum í fyrir nokkrum árum var auðvitað mjög brútal og ég legg áherslu á að við ræðum við Hverfisráðin og fáum að vita hvenær þeim myndi henta að hafa opið.“

Aron Guðmundsson tók einnig undir þetta og bætti við að hann hefði setið íbúafund á Þingeyri þar sem fólk lét í ljós óánægju sína með opnunartíma sundlaugarinnar. Hann lagði þó einnig áherslu á að farið væri í þessa vinnu í fullu samstarfi við íbúa og Hverfaráð.

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA