Segir Möngu hafa fylgt þeim hjónunum lengi

Tapio Koivukari sem skrifaði bókina Galdra-Manga.

Finnski rithöfundurinn sem Ísfirðingar ættleiddu á sínum tíma, Tabio Koivukari gaf nýverið út bókina Galdra-Möngu. Tapio kom fyrst vestur á firði árið 1989 og þá til að vinna í fiski á Flateyri. Þar bjó hann í verbúð eins og svo margir og segir að stuðið í bænum hafi verið ofboðslegt. Seinna vann hann sem smíðakennari á Ísafirði og er giftur henni Huldu sem er þaðan. En af hverju ákvað Tapio að skrifa sögu konu sem flúði galdraofsóknir í Árneshreppi og settist að á Ströndum?

„Sagan er þannig að Hulda konan mín sem er myndlistakona fór á þæfingarnámskeið þegar við bjuggum í Finnlandi. Hún reyndi að gera flókahúfu en úr varð einhverskonar hetta sem við fórum að nota yfir kaffiketillinn. Og við fórum að kalla þessa hettu Möngu af því að Manga gefur kaffið eins og kemur fram í vísu eftir Þórberg Þórðarson,“ sagði Tapio þegar blaðamaður hitti hann kaffiþyrstan og þreyttan eftir langa bílferð frá Reykjavík og vestur á firði. Hann segir að Manga hafi haldið áfram að sækja á Huldu og svo mjög að hún gerði fjöldann allan af flókamyndum af þessari kvenfígúru, andlitslausri en full af kvenlegri orku. „Hulda hélt sýningu á Ísafirði með þæfðum Möngu myndum, mig minnir árið 2000 og þannig kom Manga til okkar,“ segir Tapio.

Þegar þau hjónin voru í vettvangsrannsókn fyrir bók Tapios um Spánverjavígin, Ariasman, rifjaðist galdrafárið í Árneshreppi upp fyrir honum sem og saga Möngu. „Manga, eða Margrét Þórðardóttir var dóttir galdramanns á Munaðarnesi. Mér fannst alveg kjörið að gera aðra bók um íslenskt efni sem varð þá Galdra-Manga. Líka vegna þess að eins og kemur fram í heimildum þá slapp Manga að öllum líkindum. Þrátt fyrir að það væru erfiðir tímar þarna þá slapp hún og mér finnst gott að segja svona sögu á þessum síðustu og verstu tímum.“

„Þetta galdrafár eða brennutíminn, hann segir okkur að á miðöldum var afstaða yfirvalda til galdurs eiginlega eins og núna. Sumir gátu stundað galdur en það var bara rugl, bull og vitleysa. En á 15. öld fóru að myndast kenningar um að galdramenn væru í sambandi við djöfullinn og fengju áhrifamátt frá honum. Þetta voru samsæriskenningar þessa tíma og menn voru að berjast gegn því illa með því að berjast gegn göldrum. Þessar galdrakenningar bárust svo yfir Evrópu en það er mjög athyglisvert að í útjöðrum Evrópu rýrnaði galdrakenningin og þar kenndi meira staðbundinna viðhorfa líkt og á Íslandi og í Finnlandi eða í finnskumælandi sveitum. Þar voru ákærðir, dæmdir og brenndir karlar. En á meginlandi Evrópu var meginhluti dæmdra konur.“

Rithöfundurinn segir jafnframt frá því að í Finnlandi, sem þá var hluti af Svíþjóð, hafi um 300 manns verið teknir af lífi í galdrafárinu. „Þetta voru sænskumælandi konur og finnskumælandi karlar,“ segir hann. „Það var sem sagt þannig að í Svíabyggðum og Álandseyjum var farið eftir evrópskum kenningum. En á finnskumælandi svæðum var farið eftir eldri ímynd um þá sem framleiða galdur og vitrir karlar, kraftaskáld eða seiðkarlar urðu frekar fyrir barðinu á yfirvöldum.“

„Á Íslandi voru flestir galdramenn á Vestfjörðum og ég held að ástæðan hafi verið sú að þegar menn voru að bíða í verbúðum eftir að gæfi á sjó þá hafi myndast tími til að skiptast á galdrauppskriftum. Menn ristu rúnir, fóru með vísur og særingaþulur. Þar hefur verið staður og stund til að grúska í þessu.“ Rithöfundurinn fræddi blaðamann einnig á því að vegna þess hve samfélagið hér á landi innihélt stífar reglur, um það til dæmis hverju máttu og áttu land og hverjir máttu gifta sig þá hafi mikil spenna og öfund verið undirliggjandi. „Og margir þeirra sem voru brenndir til að byrja með þeir voru miðlungsbændur sem voru aðeins að reyna að vera klárari en hinir,“ bætir hann við.

„Faðir Möngu var galdramaður og Manga fékk líka kæru á sig vegna þess að köstin og flogin sem konurnar fengu í Árneskirkju hættu ekki þó faðir hennar væri tekinn af lífi. Þá var Möngu kennt um. Hún flúði yfir heiði, en það er ekki alveg vitað hvar hún var. En svo er vitað að hún réði sig í vist á Stað á Snæfjallaströnd og varð vinnukona hjá prestinum þar. Seinna dó kona prestsins af veikindum og þau byrjuðu svo saman, presturinn og Manga. Hún eignaðist barn áður en þau giftu sig og vegna þess missti hann embættið. Þannig voru reglurnar en þau bjuggu áfram við Djúpið og eignuðust börn saman.“

Tapio segir að við skrifin á bókinni um Galdra-Möngu hafi hann reynt að kafa inn í hugsunarhátt 17. aldar mannsins en gera textann þó skiljanlegan nútímafólki. „Á þeim tíma hugsaði fólk mjög mikið í gegnum kristna trú en aftur á móti voru álfar og huldufólk og allskonar særingar hluti af daglegu lífi fólks. Þá velti enginn fyrir sér hvort þau trúðu á huldufólk eða drauga heldur var það bara hluti af hversdagsleikanum. Yfirnáttúrulega verur voru bara þarna sem næstu nágrannar.“

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA