Íþróttahátíð í Bolungarvík á morgun

Það verður ekki leiðinlegt fyrir gesti íþróttahátíðarinnar að prófa nýja körfuboltavöllinn úti í Vík.

Hin árlega íþróttahátíð í Grunnskóla Bolungarvíkur verður haldin á morgun,  þann 25.október 2018. Hátíðin verður í grunnskólanum og íþróttamiðstöðinni Árbæ.

Öllum skólum á Vestfjörðum er boðið að taka þátt og þátttaka er gjaldfrjáls. Keppnir hefjast klukkan 10 og hátíðin stendur til klukkan 18:45. Það er eftir miklu að slægjast því keppt verður í allskonar íþróttum svo sem fótbolta, körfubolta, skotbolta, sundi, sundblaki og spurningakeppni. Til þess að hita upp fyrir hátíðina hafa grunnskólnemendur att kappi við kennara sína í æsispennandi viðureignum.

Um kvöldið geta eldri nemendur í 8.-10. bekk svo dillað sér á balli í Félagsheimilinu. Það stendur kl 20-23 og DJ og Aron Can mun sjá til þess að enginn fari ódillaður heim. Ballmiðinn kostar litlar 1200 krónur og miðarnir fást bæði í sjoppunni í íþróttamiðstöðinni sem og við innganginn á ballið.

Sæbjörg

sfg@bb.is

DEILA