Hátt í 300 konur komu saman í Alþýðuhúsinu

Alltof oft er reynt að þagga niður í stúlkum og konum. Nú er mál að linni.

Spennan á Ísafirði var næstum áþreifanleg þegar blaðamaður renndi inn í bæinn í tilefni Kvennafrídagsins 2018. Urmull af körlum renndu einsamlir í bílum eftir Skutulsfjarðarbrautinni en herskáar konur flykktust í hópum í hina áttina, nýkomnar úr vinnu klukkan 14:55 til þess að sýna fram á, að í samanburði við laun karla var þeirra vinnudegi lokið þarna.

Hátt í 300 konur af öllum stærðum og gerðum hittust á Silfurtorgi og gengu fylktu liði í Alþýðuhúsið. Þar voru haldnar ræður og samkenndin kvenna á milli einkenndi samkomuna; við erum sterkar þegar við stöndum saman. Iwona Samson steig fyrst á stokk í ræðustólnum og fagnaðarlætin voru mikil þegar hún blés eldi í brjóst viðstaddra með innblásinni ræðu um réttindi kvenna og það réttindaleysi sem í raun enn ríkir.

Stórhljómsveit sem eingöngu var skipuð konum lék Öxar við ána eins og vera bar á slíkum hátíðisdegi og Bryndís Friðgeirsdóttir, ein forkólfa þessarar samkomu, tók til máls og las erindi sem flutt var um allt land á þessum á sömu stundu.

„Samtakamáttur kvenna skiptir öllu máli,“ sagði Bryndís í samtali við BB. „Það er ekki hver kona að berjast fyrir sínum rétti hér, heldur erum við að berjast fyrir allar konur, saman. Þess vegna er svo mikilvægt að við hittumst svona af og til og því miður erum við alltaf með sömu slagorðin. Því þó eitthvað hafi áunnist og við höfum stigið skref fram á við og Ísland telst framarlega, þá er bæði valdamunurinn og launamunurinn svo mikill og allur aðstöðumunur er of mikill ennþá. En við höldum áfram. En við erum líka með gleðina í þessu og fullt af körlum með okkur,“ sagði Bryndís áköf og hún á miklar þakkir skildar fyrir að skipuleggja þennan atburð á Ísafirði.

Jóna Benediktsdóttir sagði frá þeim gleðifregnum í ræðustól að þennan sama dag stæði til að stofna Feministafélag í Menntaskólanum á Ísafirði. Enda voru margar ungar konur mættar í gönguna og þeirra er framtíðin.


Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA