Fáein orð um tortímingu jarðar

Eiríkur Örn Norðdahl. Mynd: Baldur Pan.

Fyrr í þessum mánuði birti milliríkjanefnd um loftslagsbreytingar kolsvarta skýrslu um framtíð þessa innanbrennandi grjóthnullungs sem við köllum heimili okkar, sem við köllum jörðina, Terra, þriðju reikistjörnu frá sólu á ógnarflugi í gegnum nákalt myrkrið sem umlykur allt. Hafi ég ekki alvarlega misskilið eitthvað er sem sagt allt á leiðinni rakleitt til helvítis, iðnbyltingin hefur gengið svo hart að lofthjúpnum að jörðin snarhlýnar með þeim afleiðingum að veður verða vályndari og vályndari, hafið rís og náttúran sjálf geltir, bítur og grætur. Og skyldi engan undra – við þekkjum það mæta vel hér á hjara veraldar hversu grimmilega náttúran getur slegið frá sér og höfum við þó aldrei gert henni neinn viðlíka skaða og síðustu 150 árin eða svo. Þetta er heldur ekkert nýtt, við vissum þetta alveg, og við munum líka hafa vitað þetta þegar næsta skýrsla – enn svartari – birtist og verðum samt ábyggilega steinhissa og staðráðinn í að gera eitthvað í málunum alveg þangað til jarðkringlan steypist ofan í svartholið með manni og mús.

En kæru lesendur, áður en þið hengið ykkur öll úr þunglyndi er rétt að ég nefni að skýrsluhöfundar fullyrða að ekki sé öll nótt úti enn, séum við tilbúin til að bregðast rösklega við, og þeir mælast til þess að við neytum minna af dýraafurðum, neytum frekar þess sem er framleitt í heimabyggð, drögum úr matarsóun, nýtum almenningssamgöngur, rafmagnsbíla, hjól og fótleggina á okkur frekar en bensín- og dísilbíla. Já og að við takmörkum flugferðir. Þetta eru í fljótu bragði séð ekki flóknar leiðbeiningar, örfáir punktar, og ef við förum eftir þeim framlengjum við kannski lífið á jörðinni rétt nógu lengi til að barnabörnin mín, eignist ég nokkur slík, verði gamalmenni frekar en að drepast ung að aldri í eldi, flóðum og eimyrju.

Fáeinar praktískar spurningar

Strax og ég hefst handa við að laga „lífsstíl“ minn að breyttum þörfum fallast mér samt hendur. Eitt er að ég ferðast talsvert erlendis vinnu minnar vegna – og sömuleiðis fjölskyldu minnar vegna, en tengdafjölskylda mín er ansi dreifð. Á ég að hætta öðru hvoru? Fæ ég þá aldrei að verða frægur rithöfundur á Spáni og í Króatíu og verð ég að láta mér duga að skæpa við tengdafjölskylduna? Eyða sumarfríinu í Tunguskógi? Þetta er kannski dæmi um þær fórnir sem þarf að færa og í raun veit ég alveg svarið. Ég ætti helst aldrei að fara neitt.

Restin er síðan svo flókin að ég fæ viðstöðulausan höfuðverk í hvert einasta sinn sem ég geri minnstu tilraun til þess að hugsa um það. Hvort á ég að kaupa Örnumjólk – dýraafurð sem er framleidd á næstu grösum – eða haframjólk sem er flutt inn frá Svíþjóð? Hvort á ég að kaupa regnbogasilung úr nærliggjandi fiskeldi eða grænmetisbuff framleitt í Þýskalandi úr sojabaunum frá Suður-Ameríku? Er verra að borða kjúkling frá Suðurlandinu en til dæmis möndlur frá Kaliforníu? Ef ég er einn á ferð hvort á ég þá heldur að nota almenningsssamgöngur – flug – þegar ég er að fara suður eða keyra? Ætti ég að flytja til borgarinnar bara – og eyða hálfum deginum í strætó? Er umhverfisvænna að ég hendi súkkunni minni og kaupi mér rafmagnsbíl – sem þarf að framleiða og flytja inn? Nýja Mac tölvan er víst sú allra umhverfisvænasta hingað til – úr 100% endurnýttu áli – verð ég ekki að panta mér eintak strax, áður en heimurinn ferst? Á ég að fagna hugmyndum um þjóðgarða á þeirri forsendu að við getum grætt á þeim meiri pening en að virkja, þegar rafmagnið á að heita loftslagsvinsamleg orkuframleiðsla, og túristarnir sem ætla að skoða hinn ósnortna þjóðgarð koma flestir með þotum frá Asíu og Ameríku og svo gott sem einnota bílaleigubílum frá Keflavík? Ég hendi miklu af lífrænu rusli – er það matarsóun eða er það bara vegna þess að ég geri svo margt frá grunni? Og segjum að ég hætti að hræra majonesið mitt sjálfur og láti alveg vera að leggja inn síld, gera pasta og sýra grænmeti og kaupi það heldur bara í krukkum í Bónus (og fari heim með það í niðurbrjótanlegum plastpoka) er ég þá ekki bara að útvista þeirri matarsóun til einhverrar verksmiðju í Hollandi svo ég geti étið með góðri samvisku? Á ég að kaupa lífrænt ræktað grænmeti innpakkað í plast eða „ólífrænt“ grænmeti í lausu? Og segjum að ég troði í mig leifunum af diskum barnanna þegar þau klára ekki matinn sinn og ég nenni ekki að rífast við þau lengur – er hollt, er það gott fyrir plánetuna einu sinni, að ég noti líkamann á mér einsog ruslafötu? Er það eitthvað „minni matarsóun“ bara af því ég treð í mig mat sem ég þarfnast ekki? Eykst ekki vistspor mitt ef ég fitna?

Fáeinar sjálfsagðar fullyrðingar um eðli kapítals

Auðvitað jaðrar það við sturlun, hreina sjálfhverfu, að halda að einstaklingsframtakið muni bjarga miklu í heimi sem stýrist fyrst og fremst af kapitalískum framleiðsluháttum. Sóun og neysla – hvort heldur það er á vatni, rafmagni, bensíni, plasti, matvælum, timbri, málmum eða öðrum náttúrunnar gæðum – á sér fyrst og fremst stað í framleiðsluferlinu sjálfu, þar sem hlutir eru gerðir til þess að endast ekki lengur en svo að þá þurfi reglulega að endurnýja og öllu kostað til við að hafa framleiðsluhættina sem ódýrasta. Það að stöku stórfyrirtæki kjósi að stökkva annað veifið á eitthvert vinsælt dægurmál, hvort sem það er umhverfisvernd, náttúruvernd, kvenréttindi, byltingartíska eða annað – og gera sér kapítal úr ótta okkar eða réttlætiskennd – breytir engu um þetta, því ef það er eitthvað sem mun ekki bjarga okkur, þá er það ásýnd stórfyrirtækja.

Raunsæið segir mér síðan að óhugsandi sé fyrir einstakling (eða fyrirtæki) að draga svo úr vistspori sínu að það sjáist ekki – stöku hugsjónamanneskja getur kannski gert það mjög lítið, og notið samfélags í krafti þess að einhver annar sjái um að byggja hús og malbika götur – en á meðan við skilgreinum heiminn sem annars vegar náttúru og hins vegar samfélag manna, kamar sem lýti á náttúru en hreiður sem prýði, er alveg ljóst að tilvist okkar mun hafa afleiðingar. Við getum og eigum að stefna að sjálfbærni, ef við kærum okkur yfir höfuð um að lifa af, og sennilega erum við í djúpri og mikilli vistskuld sem verður að greiða áður en við getum náð nokkru jafnvægi aftur.

Fáeinar verklegar atrennur að róandi öndunaræfingum

En ef það er ómögulegt að láta vistsporið hverfa þarf maður að gera upp við sig hvað maður þurfi og hvað megi missa sín – maður þarf að skammta sér einhvers konar kvóta. Og þá þarf maður að hafa grófa hugmynd um hvað hver þáttur er mikilvægur, hversu mikið hann gengur á kvótann. Einhver sagði við mig að ein flugferð til London væri sambærileg við ársrekstur á Range Rover. Og þá held ég áfram að spyrja mig: Ef ég er duglegur að hjóla og borða lítið kjöt og nota bara umhverfisvænt þvottaefni – má ég þá fara með pabba á Tottenham leik á nýja leikvanginum á næsta ári? Hver er munurinn á vistspori banana eftir því hvort ég borða hann í Hondúras eða á Ísafirði? Má ég kynna skáldsögu á Spáni ef hún fjallar um loftslagsvánna og er líkleg til að fá „venjulegt fólk“ til að bregðast við? Hversu miklu máli skiptir að ég kaupi brauð úr Gamla bakaríinu frekar en verksmiðjubrauð úr Reykjavík ef hráefnin eru hvort eð er öll innflutt? Ef mér tekst sjálfum að sannfæra eina franska fjölskyldu um að vera bara heima í sumarfríinu, frekar en að koma og sjá Gullfoss, er ég þá búinn að vinna mér inn fyrir ferð til Benidorm í nokkrar vikur – með því skilyrði að ég drekki þá bara San Miguel, auðvitað?

Og þá dettur mér alltíeinu í hug: Mikið væri nú ágætt ef fyrirfyndist í heiminum – eða bara landinu – einhvers konar „yfirvald“ sem gæti einfaldlega sett reglur um framleiðsluhætti, dreifingu og sölu; hreinlega bannað fólki og fyrirtækjum að eyðileggja plánetuna, svo ég þyrfti ekki að trylla mig á þessu sjálfur og treysta því þess utan að allir samborgarar mínir standi sína plikt jafn viðstöðulaust og háheilagt rassgatið á mér. Því ekki skipti ég miklu, litli ég, einn einasti einstaklingur, og einsog stendur er langsennilegast að lifi ég loftslagshlýnunina af drepist ég bara úr loftslagskvíða í staðinn.

Eiríkur Örn Norðdahl

DEILA