Er alþýðumenning þjóðararfur? Eða er hún bara púkaleg?

Svo spyr Byggðasafn Vestfjarða sem býður til málþings í Edinborgarhúsinu þann 2. nóvember klukkan 9-16. Dagskráin er ekki af verri endanum og þar mæta bæði innlendir og erlendir sérfræðingar í varðveislu báta, alþýðumenningu, menningararfi og ferðamennsku. Björgunarskútan María Júlía fær sinn skerf af athygli, enda hefur hún legið undir skemmdum við Ísafjarðarhöfn í langan tíma. Allir eru hjartanlega velkomnir á málþingið og Edinborgarkruðerí verður á boðstólum fyrir gestina.

Dagskráin er svohljóðandi:
09:00 – 10:00 Erik Småland, Varðveisla á bátum í Noregi
10:00 – 10:30 Ágúst Ó. Georgsson, Varðveisla á eldri bátum á Íslandi.
10:30 – 10:45 Kaffi
10:45 – 11:15 Jón Sigurpálsson og Björn Erlingsson, Björgunarskútan María Júlía, táknmynd skeytingaleysis.
11:15 – 11:45 Jón Jónsson, Hvað er alþýðumenning? Er hún þjóðararfur?
12:00 – 13:00 Hádegishlé
13:00 – 13:30 Einar Kárason, „Án skipa væru engir Íslendingar“
13:30 – 14:00 Guðrún Jónsdóttir, Samspil ferðamennsku og framsetningar á íslenskum menningararfi / alþýðumenningu.
14:00 – 14:30 Áki Karlsson, Samtaka í þágu menningararfsins.
14:30 -14:45 Kaffi
14:45 – 15:15 Sigurjón Baldur Hafsteinsson, Hver er leiðin fram á við?
15:15 – 16:00 Samantekt, umræður og helstu niðurstöður.
17:30 – 19:00 Munir og mynd. Opnun sýningar í Turnhúsinu. Hönnuður: Jón Sigurpálsson.
19:00 Kvöldverður í Tjöruhúsinu

Í viðburðalýsingu fyrir málþingið er sagt að svo virðist sem yfirvöld hafi tekið meðvitaða ákvörðun um að viðhalda ekki atvinnutækjum sjómanna. Þetta hafi verið gert með breytingu safnalaga og tilfærslu í styrkjakerfinu. Þar segir ennfremur: „Endurgerð báta heyrir nú undir Fornleifasjóð Minjastofnunar. Þannig eru fyrrum atvinnutæki hversdagsins, s.s. bátar af öllum gerðum nú í samkeppni við fornleifauppgröft í allri sinni dýrð. Undir þessum kringumstæðum verður hin hversdagslega alþýðumenning alltaf hornreka. Með óbreyttri minjastefnu er söfnum gert ókleift að sinna hlutverki sínu innan ramma laganna.“

Þá er minnst á keppnina sem Minjasöfn eru skyndilega komin í við sýningar einkaaðila vegna vaxandi ferðaþjónustu. Þannig hafi til dæmis sýndaveruleikasýning einkaaðila á Sauðárkróki fengið fjármagnið sem byggðasafnið hefði annars fengið og þannig er menningararfur þjóðarinnar búinn til en ekki fundinn með rannsóknum fræðimanna. Byggðasafn Vestfjarða veltir því upp þessum spurningum: „Er menning almúgafólks púkaleg? Verða yfirvöld bæjar/sveitarstjórna sem og ríkisstjórna að fá einkaaðila til að sýna gestum betri mynd af okkur sjálfum? Málþing Byggðasafns Vestfjarða spyr því, er alþýðumenning þjóðararfur? Hver er leiðin fram á við?“

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA