Þorsteinn Goði og Guðmundur munu keppa í Abu Dabi í mars

Þessi flottu kappar, þeir Þorsteinn Goði og Guðmundur ætla til Abu Dhabi í mars.

Heimsleikar Special Olympics fara fram í Abu Dabi dagana 14. til 21. mars 2019. Íþróttasamband fatlaðra og Special Olympics á Íslandi senda 38 keppendur til þáttttöku í 9 íþróttagreinum, badminton, boccia, áhalda og nútímafimleikum, frjálsum íþróttum, golfi, lyftingum, knattspyrnu og sundi. Í þessum hópi verða 2 strákar frá Bolungarvík sem keppa í badminton. Þorsteinn Goði Einarsson mun keppa í einstaklingskeppni í badminton og Guðmundur Kristinn Jónasson keppir síðan með honum í Unified tvíliðaleik en þar keppa fatlaðir og ófatlaðir saman. Með þeim fer þjálfari þeirra Jónas L. Sigursteinsson.

Áætlað er að leikarnir verði stærsti íþróttaviðburður heims árið 2019, 7000 keppendur auk þjálfara og aðstoðarfólks. Forsvarsmaður Special Olympics samtakanna er Timothy Kennedy Shriver. Samtökin standa að íþróttastarfi fyrir fólk með þroskahömlun og/eða sérþarfir og markmið er að allir eigi sömu möguleika á sigri. Raðað er í úrslitariðla eftir styrkleikastigi og allir keppa við sína jafningja. Margir stíga í fyrsta skipti á verðlaunapall á leikum Special Olympics og þar hafa einstaklingar blómstrað á eigin verðleikum.
Auk íþróttastarfs hafa samtökin lagt áherslu á önnur verkefni sem skapa aukin lífsgæði, s.s. heilbrigði- og menntun.

Þorsteinn Goði æfir badminton 2-3x í viku með Íþróttafélaginu Ívari ásamt 2 öðrum strákum. Guðmundur kom síðan inn í þetta verkefni síðasta vetur og æfir nú með Þorsteini og verður félagi hans í Unified flokknum á leikunum. Kostnaður Íþróttafélagsins Ívar vegna þáttöku á Special Olympics er um 400.000 og munu strákarnir á næstu dögum ganga í fyrirtæki og selja penna til styrktar ferðinni en einnig eru frjáls framlög frá fyrirtækjum og einstaklingum vel þegin, reikningsnúmer félagsins er: 0154-05-001632, kt. 430596-3069.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA