Telur að Umhverfisstofnun aðstoði Arnarlax við að brjóta reglur

Tveir landeigendur í Arnarfirði hafa ítrekað krafist aðgerða af hálfu Umhverfisstofnunar vegna meintra brota á starfsleyfi Arnarlax á svæðinu en Fréttablaðið sagði frá þessu um helgina. Þeir hafa nú kvartað til umhverfisráðuneytisins vegna þeirrar málsmeðferðar Umhverfisstofnunnar.

Arnarlax tæmdi sjókvíar við Hringsdal í Arnarfirði 7. mars síðastliðinn og hóf útsetningu seiða þar á ný þremur mánuðum síðar, 6. júní. Þetta fer í bága við starfsleyfi fyrirtækisins en í því segir að eldissvæði skuli hvíla milli eldislota að lágmarki í sex til átta mánuði. Hvorki virðist deilt um brotin af hálfu Umhverfisstofnunar né Arnarlax.

Í svörum Umhverfisstofnunar við fyrirspurn Fréttablaðsins kemur fram að stofnunin hafi sent fyrirtækinu áform um áminningu vegna þessa atviks þann 16. júlí síðastliðinn. Rekstraraðili hafi sent inn úrbótaáætlun í kjölfarið sem miðaði að því að sótt yrði um undanþágu til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um hvíldartíma svæðisins og var hún send inn þann 30. júlí.

Ari Wendel, annar landeigendanna, hefur staðið í stappi við Umhverfisstofnun vegna málsins frá því seiðin voru sett út í vor. Þeir hafa krafist þess að starfsemin verði stöðvuð og seiðin verði flutt burt úr kvíum tafarlaust til að svæðið fái fullan hvíldartíma samkvæmt starfsleyfinu.

„Það sem okkur finnst svo sérkennilegt er að eftirlitsstofnanir skuli ekki bregðast við heldur sýna þeim meðvirkni sem stofnunin á að hafa eftirlit með og vera í rauninni að hjálpa þeim við að finna svigrúm til að brjóta reglurnar og starfsleyfið,“ segir Ari en þeir hafa kvartað undan málsmeðferð stofnunarinnar til Umhverfisráðuneytisins en ekki enn fengið viðbrögð.

Í úrbótaáætlun Arnarlax kemur fram að auk beiðni um undanþágu frá tilskildum hvíldartíma svæðisins hafi fyrirtækið sent Skipulagsstofnun matsskyldufyrirspurn vegna breytinga á starfsleyfi þess efnis að hvíldartími verði að lágmarki 90 dagar. Matsskyldufyrirspurnin sé í vinnslu og reikna megi með að sú vinna taki 3-6 vikur og fyrirtækið muni láta Umhverfisstofnun vita þegar fyrirspurnin verði send. Samkvæmt svari Umhverfisstofnunar hefur Arnarlax ekki ennþá sent matsfyrirspurn til Skipulagsstofnunar og beiðni um undanþágu ekki verið afgreidd í ráðuneytinu.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA