Samgöngur til framtíðar

Halla Signý Kristjánsdóttir.

Nú hefur samgönguráðherra Sigurður Ingi lagt fram þingsályktunartillögu að samgönguáætlun fyrir árin 2019-2033. Í henni er að finna stefnu í samgöngumálum og skilgreiningu á grunnneti samgöngukerfisins sem skulu ná til alls landsins. Hún kemur inn á heildstæða samþættingu um stefnu í samgöngumálum, fjarskiptamálum og byggðamálum. Samgöngur skipta miklu máli þegar talað er um dreifingu ferðamanna um landið.

Það er því eðlilegt að samgönguáætlunar hafi verið beðið með óþreyju enda eru samgöngur og fjarskiptamál undirstaða nútíma samfélags á öllu landinu. Grunnnet vegakerfisins eru þeir stofnvegir og tengja saman byggðir landsins. Vestfirðingar þekkja það svo vel að fjórðungurinn hefur ávallt setið hjá þegar kemur að uppbyggingu grunnnetsins um landið. Þetta á sérstaklega við suðurfirðina sem geta alls ekki státað sig af nútíma grunnneti.
Það er ánægjulegt að sjá að í þessari samgönguáætlun er megináhersla lögð m.a. á grunnnet á Vestfjörðum. Á næstu árum eiga rúmir 25 milljarðar að renna til nýframkvæmda á Vestfjörðum.

Dynjandisheiðin er inni
Þar má fremst telja Dýrafjarðargöng sem nú þegar eru rúmlega hálfnuð. Síðan er gert ráð fyrir 5,3 milljörðum til uppbyggingar á Dynjandisheiðinni. Það er grátlegt að ekki skuli meðfram vinnu við Dýrafjarðargöng verði unnið í heiðinni. En staðreyndin er sú að enn þá er verið að vinna að hönnun vegstæðis. Matskýrsla er að verða tilbúin sem þá á eftir að fara í umhverfismat. Gert er ráð fyrir að hægt verði að bjóða verkið út á árinu 2020. Framkvæmdir við Bíldudalsveg eru inni í tengslum við gerð nýs vegar um Dynjandisheiði.
Í samgönguáætlun er miðað við að uppbygging vegar í Gufudalssveit hefjist strax á næsta ári. Það er því vonandi að hreppsnefnd Reykhólahrepps komist sem fyrst að skynsamlegri niðurstöðu sem hefur hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.

Þetta eru stærstu framkvæmdirnar sem lagðir eru til. Af öðrum verkefnum má nefna Örlygshafnarveg um Hvallátur sem er á áætlun 2019 upp á 120 milljónir og framkvæmdir um Veiðleysuháls sem unnið verður að á næstu árum. Á næsta ári verður farið í framkvæmdir á Djúpvegi í Hestfirði og Seyðisfirði og í Álftafirði.

Öryggi vegfarenda
Í samgönguáætlun er áhersla lögð á öryggi. Liður í því er að gera átak við lagningu á bundnu slitlagi þar sem það vantar og fækka einbreiðum brúm á umferðamestu vegum landsins.

Viðhald vega
Miklu skiptir að lögð sé áhersla á viðhald vega jafnhliða nýframkvæmdum. Í samgönguáætlun er gert ráð fyrir verulega aukningu á framlögum til viðhalds vega. Enda uppsöfnuð þörf mikil. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli þegar að kemur að öryggi vegfarenda.

Framtíðar sinfónían
Nú á haustdögum er þingsályktunartillagan lögð fyrir þingið og verður vonandi samþykkt áður en þingið fer í jólafrí. Það er mitt mat að vel megi við una en þó sakna ég þess sárlega að ekki skuli vera minnst á Súðavíkurgöng. Á síðastliðnu þingi lagði ég fram fyrirspurn til samgönguráðherra um hvort hann teldi ekki öruggt að göngin yrðu í komandi samgönguáætlun. Engu var lofað í þeim efnum en bent á að næstu göng sem horft væri til væru Norðfjarðargöng. Það skiptir máli að þingmenn kjördæmisins haldi áfram að minna á mikilvægi Súðavíkurganga svo auka megi öryggi vegfarenda og efla uppbyggingu í Súðavík og nágrannasveitarfélögunum.

Samgönguáætlunin er fjármögnuð og er samstíga samþykktri fjármálaáætlun. Hér er því ekki á ferðinni ófjármagnaður óskalisti.

Halla Signý Kristjánsdóttir 7. þingmaður NV kjördæmis.

DEILA