Perlum saman á Ísafirði á laugardaginn

Bæði börn og fullorðnir geta notið þess að perla saman fyrir Kraft.

Laugardaginn 15. september verður Kraftur með perluviðburð í Grunnskólanum á Ísafirði milli klukkan 11:30 og 15:30. Þetta er í fyrsta sinn sem Kraftur verður með slíkan viðburð á Ísafirði og eru allir á Vestfjörðum hvattir til að mæta á svæðið og taka þátt í þessum skemmtilega degi.

Á viðburðinum eru perluð armbönd í litum Krafts, appelsíngul og svört. Armböndin eru með áletruninni „Lífið er núna“ og eru auðveld í samsetningu svo að allir geta tekið þátt, börn sem fullorðnir. Með því að taka þátt er Krafti hjálpað við að standa við bakið á ungu fólki sem greinst hefur með krabbamein sem og aðstandendum þeirra en armböndin verða líka seld á viðburðinum og eru þau alfarið til styrktar Krafti.

Samhliða þessu verður Kraftur með stuðningsfulltrúanámskeið fyrir verðandi stuðningsfulltrúa í stuðningsneti Krafts og Ráðgjafaþjónustu Krabbameinsfélagsins í húsnæði Sigurvonar, Krabbameinsfélagsins á Ísafirði. Námskeiðið er bæði ætlað þeim sem hafa greinst með krabbamein og hafa lokið við krabbameinsmeðferð sem og aðstandendum, sem vilja styðja við einstaklinga sem eru í svipuðum sporum.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA