Nýr flugvöllur

Guðjón Brjánsson

Flugsamgöngum við Vestfirði hefur í áranna rás verið sinnt við erfið skilyrði og svo er reyndar enn í dag. Aðeins minni farþegaflugvélar geta í raun sinnt þjónustu við íbúa fjórðungsins vegna staðsetninga flugbrauta í okkar tignarlega fjalllendi. Svo er komið að stærri vélar Air Iceland Connect henta ekki til flugs vestur. Sú staðreynd ein getur haft hamlandi áhrif á komur ferðamanna sem er mikið hagsmunaatriði. Vestfirðir eru því í algjörri sérstöðu varðandi flugsamgöngur á landsvísu.

Stærsti flugvöllurinn sem er í notkun í fjórðungnum, Ísafjarðarflugvöllur er barn síns tíma. Staðsetningin er óheppileg, bæði aðflug og fráflug eru afar aðkreppt og í austlægum áttum getur orðið mjög misvinda. Kvöld- og næturflug er ekki valkostur við óbreyttar aðstæður.

Á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar voru vegasamgöngur í Vestfjarðafjórðungi frumstæðari en nú er, þótt mikið vanti upp á að þær teljist viðunandi. Einungis var um malarvegi að ræða og fæstir uppbyggðir og lokuðust því í fyrstu snjóum. Fyrir vikið var komið upp fjölda lítilla flugvalla á Vestjarðakjálkanum. Þeir urðu mest 25 talsins í reglulegri notkun en þróunin hefur orðið sú að nú eru einungis 7 vellir á skrá hjá flugmálayfirvöldum.

Þegar framkvæmdum við Dýrafjarðargöng verður lokið ásamt óhjákvæmilegum vegaframkvæmdum í tengslum við þau, þá skapast nýjar aðstæður, breyttir og auknir möguleikar í samgöngumálum, bæði á landi og í lofti.

Þótt samgöngur á landi verði mun greiðari á næstu árum mun þörfin fyrir áreiðanlegar flugsamgöngur verða áfram fyrir hendi. Nefna má sjúkraflug, vöruflug og farþegaflug, jafnvel á milli landa.

Mikil fjölgun hefur verið á komum erlendra ferðamanna til landsins. Þeir hafa þó að langmestu leyti farið um Keflavíkurflugvöll við komu sína til landsins. Líklegt er að í verulegum mæli megi hafa áhrif á þá þróun með breyttum áherslum og skipulagi. Skoða þarf vandlega hvort mögulegt sé að skapa landinu enn sterkari stöðu sem viðkomustað fyrir skilgreinda hópa ferðalanga, sem dæmi aðila sem njóta vilja náttúru landsins á friðsælum stöðum, t.d. á Vestfjörðum. Slíkir hópar myndu t.d. sækja í sjóferðir, siglingar, gönguferðir, jöklaferðir og sögu- og náttúruskoðun svo eitthvað sé nefnt. Með flugvelli miðsvæðis í fjórðungnum sem gæti tekið á móti 70–100 sæta farþegavélum væri hægt að fljúga beint inn á svæðið án viðkomu í Keflavík. Þar með væri dregið úr álagi á flugvöllinn í Keflavík og möguleikar alls landsins sem ferðamannalands betur nýttir.

Með vaxandi uppbyggingu í fiskeldi á svæðinu auk hefðbundinnar vinnslu bolfisks er jafnframt athugunarefni hvort ekki skapist markaðslegar forsendur til flutnings á ferskum afurðum beint til kaupenda erlendis.

Það er rík ástæða til að gefa þessum atriðum gaum tímanlega með uppbyggingu svæðisins alls í huga, gæta þess þó í öllu tilliti að vera raunsæ en framsýn og bjartsýn.

Sá sem þetta ritar átti frumkvæði að því að leggja fram á Alþingi þingsályktunartillögu um að gerð yrði staðarvalskönnun fyrir nýjan og öflugan flugvöll fyrir fjórðunginn sem svarað gæti kröfum tímans um örugga og heppilega staðsetningu og hlutverk við hæfi. Öllum þingmönnum kjördæmisins var boðið að bera fram tillöguna ásamt undirrituðum og tveir þeirra þáðu, sem er gleðiefni.

Efni tillögunnar er í stuttu máli á þá leið að samgöngu- og sveitastjórnarráðherra skuli falið að ráðast í staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll fyrir Vestfjarðafjórðung sem taki mið af vaxandi ferðamannastraumi inn á svæðið, aukningu í matvælaframleiðslu, vaxandi hátækni iðnaði og þörf fyrir flutning aðfanga og afurða, bæði innan lands og utan. Í könnuninni felist langtíma veðurfarsmælingar og mat á náttúrulegum aðstæðum. Þá verði metin hagkvæmni staðsetningar með þarfir fjórðungsins í huga þegar jarðgöng og vegaframkvæmdir hafa náð að skapa forsendur fyrir norður- og suðuhluta Vestfjarða sem eitt atvinnu- og búsetusvæði.

Bygging nýs flugvallar er umfangsmikil og kostnaðarsöm og vanda þarf vel til verka og undirbúnings. Þess er ekki að vænta að framkvæmdir verði að veruleika á allra næstu árum en rannsóknir þurfa að hefjast. Í tímans fyllingu munum við því standa klár. Ef mál þróast á þann veg sem Vestfirðingar trúa á með uppbyggingu nýrra atvinnuþátta og fjölgunar ferðamanna, þá verður ekki með góðu móti búið við óbreytt ástand í flugsamgöngum.

Hér má sjá þingsályktunartillöguna í heild.

Guðjón Brjánsson.

Höfundur er alþingismaður Samfylkingarinnar fyrir NV kjördæmi

DEILA