Kom til Íslands til að móta námsbraut í fiskeldi

Ann Cecilie kemur frá Lofoten í Noregi.

Ann Cecilie Ursin Hilling hefur undanfarið búið á Patreksfirði og unnið þar ásamt öðrum í því að koma af stað námsbraut í fiskeldi, verkefni sem kallast Blue Line Project. Verkefnið varð til vegna menntunarþarfar fyrir fólk sem vinnur í fiskeldi, bæði á landi og sjó og þegar Ann Cecilie kynnti þessa hugmynd fyrir Arnarlaxi og Vesturbyggð fyrir einu ári síðan fékk hún samþykki fyrir fjármagni í eitt ár. Nú er þetta ár að renna sitt skeið og Ann heldur brátt aftur heim til Noregs með manni sínum og tveimur dætrum. En hvernig hefur gengið?

„Við byrjuðum í september 2017 með því að tengja verkefnið við Fjölbrautarskóla Snæfellinga, þar sem sá skóli starfrækir deild á Patreksfirði,“ sagði Ann í samtali við BB. „Við byrjuðum strax að móta námsbrautina og fljótlega kom Verkmenntaskóli Austurlands einnig að verkefninu. Þannig að við höfum þá tvo skóla sem eru staðsettir næst fiskeldi á Íslandi með í Blue Line Project.“

Næstu skref voru að kynna námsbrautina fyrir fjöldanum öllum af öðrum skólum. Þar komu til dæmis að Háskólinn á Hólum, Fræðslumiðstöð Vestfjarða og Fisktækniskólinn. Hópurinn mótaði kynningarherferð og gerði myndband til að lokka fleiri nemendur að og er skemmst frá því að segja að viðtökurnar voru frábærar.


„Við höfum einnig fengið fleiri samstarfsaðila í verkefnið, þar á meðal í Noregi, þar sem þar er nú þegar hægt að sækja nám í fiskeldi. Í Færeyjum, af því ég hitti fiskeldisfólk þaðan síðastliðið haust og þau vilja gjarnan koma af stað samskonar námsbraut þar, og svo Danmörk, af því þar má læra um fiskeldi sem iðngrein og ég sá möguleikana á að tengja alla þessa staði svo allir gætu lært af öðrum og ólík reynsla landanna verið nýtt á hinum stöðunum. Fiskeldisiðnaðurinn hefur styrkt verkefnið, bæði hér og í Færeyjum og ég er gríðarlega þakklát fólki fyrir að trúa á þetta verkefni.“

Núna í ágúst var byrjað að kenna námsbrautina í Fjölbrautarskóla Snæfellinga á Grundarfirði og Patreksfirði og í framtíðinni verður einnig hægt að læra í fjarnámi, ef óskað er eftir því. Fjölbrautarskólinn og Verkmenntaskóli Austurlands sjá um námið en Ann segir að ef fleiri skólar hafi áhuga á að vera með, þá sé það meira en velkomið.

Sæbjörg
bb@bb.is

 

DEILA