Hrókurinn með Grænlandsgleði og skák á Ströndum

Hrafn Jökulsson, frá Skákfélaginu Hróknum, heimsótti nú í vikuna grunnskólana á Hólmavík og Drangsnesi. Hann byrjaði á spjalli og myndasýningu frá Grænlandi, okkar næstu nágrönnum, en þangað hafa liðsmenn Hróksins farið um 80 sinnum síðan árið 2003 til að útbreiða skák, vináttu og gleði. Hróksmenn voru síðast á ferð á Grænlandi nú í september. Þá lá leiðin til Kullorsuaq á vesturströndinni, 1060 km. norðan við heimskautsbaug.

Hrafn tefldi fjöltefli á mánudag við um 25 nemendur á Hólmavík, sem sýndu mjög góð tilþrif. Daginn eftir lá leiðin á Drangsnes, þar sem allir nemendurnir átta tóku þátt í Grænlandsgleði og skákfjöri.

Allir nemendur og starfsmenn skólanna fengu afmælisblað Hróksins, sem út kom á dögunum í tilefni af 20 ára afmæli félagsins. Hægt er að nálgast blaðið í verslunum Kaupfélags Steingrímsfjarðar á Hólmavík og Drangsnesi, og á netinu.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA