Heimsóttu Þór á Flateyri

Örlítill rigningarúði setti mark sitt á myndavélalinsu kennarans en þarna sjást börnin áður en þau stigu um borð. Mynd: Jóna Lára Sveinbjörnsdóttir.

Það vekur jafnan eftirtekt flestra þegar risavaxin varðskipin leggjast að bryggju í sjávarþorpunum. Svo var einnig á Flateyri í vikunni en þegar þorpsbúar vöknuðu einn morguninn lá Þór við bryggju hjá Guðnabúð. Risavaxið skipið nánast gnæfði yfir eyrina og það var tilkomumikil sjón að geta séð í það frá nánast hverju einasta húsi. Börnin í Grunnskóla Önundarfjarðar voru ekki síður spennt en fullorðna fólkið og kennararnir Jóna Lára Sveinbjörnsdóttir og Sigurður Hafberg ákváðu að nýta tækifærið og fá leyfi Landhelgisgæslunnar til að skoða skipið. Það var auðsótt mál og á föstudaginn örkuðu nemendur 2.-4. bekkjar með kennurum sínum niður á bryggju.

„Við fengum fylgd um skipið og útskýringar á því sem við sáum og hvað landhelgisgæslan gerir þegar hún er á sjó. Krökkunum fannst mjög gaman að koma inn í þetta risastóra skip. Þeim fannst reyndar merkilegast að sjá fallbyssuna sem þó var vel falin undir dúk,“ sagði Jóna Lára í samtali við BB.

Þegar hópurinn snéri aftur í skólann var unnið úr heimsókninni með sögugerð og myndlist og þessi upplifun mun vafalaust lifa lengi með ungviðinu á Flateyri.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA