Guðmundur bæjarstjóri er næsti gestur Landsbyggða

Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar verður gestur Landsbyggða á fimmtudaginn.

„Sjávarútvegurinn verður áfram burðarásinn í atvinnulífi Ísafjarðarbæjar, nándin við auðlindina segir okkur það,“ segir Guðmundur Gunnarsson nýr bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar. Í þættinum Landsbyggðum á N4 næstkomandi fimmtudagskvöld verður ítarlega rætt við Guðmund, meðal annars um atvinnumál.

„Atvinnulífið hérna hefur tekið miklum breytingum á nokkrum árum, núna getum við sagt að stoðirnar séu mun fleiri en áður. Í Ísafjarðarbæ eru starfandi öflug nýsköpunarfyrirtæki og mitt hlutverk verður meðal annars að gæta hagsmuna bæjarins og íbúanna í þessum málaflokki.“

Guðmundur segir að íbúar Vestfjarða horfi mjög til fiskeldis varðandi frekari uppbyggingu atvinnumála.

„Það er ekkert skrýtið. Hérna fyrir vestan eru mikil tækifæri og möguleikar, enda styrkleikar svæðisins ríkir. Þeir sem halda því fram að heimamenn vinni ekki nógu vel að undirbúningi fiskeldis í sátt og samlyndi við við náttúruna, þekkja hvorki Vestfirði eða Vestfirðinga. Þeir sem tala hæst um fiskeldi úr predikunarstólnum, ættu frekar að leggja við hlustir.“

Þátturinn Landsbyggðir er á dagskrá N4 á fimmtudagskvöld klukkan 20:30.
Þátturinn verður svo aðgengilegur hérna á bb.is á föstudaginn.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA