Grafnir 68,2 metrar í viku 34

Kubbaberg

Í viku 34 voru grafnir 68,2 m í Dýrafjarðargöngum. Lengd ganganna í lok viku 34 var 3.397,6 m sem er 64,1 % af heildarlengd ganganna.

Framan af vikunni var kubbaberg í þekju og niður á vegg, það færðist rólega niður eftir sniðinu, farið var í gegnum þunnan berggang í vikunni.
Kubbaberg er mjög smástuðlað basalt, þar sem kæling á kviku í hrauni eða móbergi hefur verið umtalsvert hraðari en í hefðbundnu hraunrennsli, þar sem við sjáum þessa týpísku ílöngu stuðla. Stuðlar myndast hornrétt á kæliflöt, þannig myndast lóðréttir stuðlar í hraunlögum, sem kólna í raun ofan frá og neðan frá eftir að hraunið staðnæmist. Nú gangar eru með lárétta stuðlun, vegna þess að þar er kæliflöturinn bergið sitt hvoru megin við ganginn. Kubbaberg er þá þar sem vatn flæðir út á hraun, eða við hraungúla, eða við óreglulega kvikupoka í móbergi, þannig að kælingin er hraðari og frá óreglulegu yfirborði.

Efnið úr göngunum var keyrt í vegfyllingar við Hófsá. Efra burðarlagi var keyrt í tengiveginn að Hrafnseyri, bráðbirgðavegur var fluttur yfir á Hrafnseyrarveg og vegfylling þá framlengd í framhaldinu að tengingunni.

Nyrðri stöpull Mjólkárbrúar var steyptur, slegið frá og búnaður fluttur að Hófsá, þar er búið að slá upp fyrir syðri stöpli og áformað að steypa í dag mánudag 27. ágúst.

Vegur í Dýrafirði, unnið við skeringu og vegfyllingu frá Kjaransstaðanámu inn fjörðinn á sunnudag var vegfylling komin í st. 10.320 og uppúrtekt og botnfylling komin að st. 10.200.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA