Erindi frá Maríu Maack -hjá Vestfjarðastofu

Sumarið heima hjá Maríu Maack.

Aðgerðaráætlun í loftslagsmálum sem kynnt var 10. september felur í sér margvísleg tækifæri. Megin áherslan verður á tvö svið:

• Orkuskipti í samgöngum, með sérstakri áherslu á rafvæðingu í vegasamgöngum.
• Átak í kolefnisbindingu þar sem skógrækt og landgræðsla gegna lykilhlutverki og markvisst verður dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda með endurheimt votlendis.

Það er einkum hið síðarnefnda sem ætti að vekja áhuga bænda og annarra landeigenda á Vestfjörðum, einnig bæjarbúa. Skógar eru ræktaðir í fjölbreyttum tilgangi. Þeir skapa skjól, gefa kost á jólatrjám, skógar draga úr vatnsrofi og auðga jarðveg. Þar skapast eldiviður og smíðaviður þegar fram líða stundir og það sem meira er, skógur getur farið ágætlega saman við sauðfjárbeit ef hann fær fyrst að ná sér sæmilega á strik. Skógrækt hentar vel í hlíðum þar sem ekki eru slegin tún og því upplagt að nýta annað en ræktuð tún til kolefnisbindingar.

Skógrækt ríkisins sér um að koma ungplöntum á legg en Skógræktarfélag Íslands hefur stutt við sjálfboðaliðasamtök með fræðslu og ýmissi þjónustu til að samhæfa verkin í upphafi. Skógræktarfélög hafa opnað trjálundi víða um land fyrir ferðamenn. Trjásöfn geta verið glæsileg og yndislegt er að ganga um vel hirtan ilmandi skóg. Það er því til mikils að vinna.

Í áætlun ríkisstjórnar segir:
,,Ráðist verður í umfangsmikið átak við endurheimt votlendis, birkiskóga og kjarrlendis, stöðvun jarðvegseyðingar og frekari landgræðslu og nýskógrækt til að vinna sérstaklega að markmiði um kolefnishlutleysi. Um 4 milljörðum króna verður varið til þessara aðgerða á næstu fimm árum. Áhersla er lögð á að fela félagasamtökum hlutverk, bændum og öðrum vörslumönnum lands.“

Nú vil ég leggja það til að bændur og félagasamtök á Vestfjörðum kanni möguleika þess að taka myndarlega þátt í þessu átaki. Hvert sveitarfélag þarf að skoða svæðis- og aðalskipulag á næstunni. Skógrækt er best að setja inn í skipulagsáætlanir þar sem þeir þykja heppileg landnýting og setja áætlanagerð af stað sem fyrst. Skólar, fyrirtæki, og sveitarfélög ættu að ræða þessi mál og kanna áhuga fyrir þátttöku. Það eru þó ekki síst bændur sem gætu notið góðs af átakinu, en best fer á því að íbúar vinni saman við að auðga flóruna á Vestfjörðum og að samráð sé haft milli sveitarfélaga þar sem það á við.

María Maack
Maria@vestfirdir.is

DEILA