Flestir ánægðir með nýja ærslabelginn

Mörgum er umhugað um hvernig er útlits í kringum Safnahúsið.

Á bæjarráðsfundi Ísafjarðarbæjar 3. september var lögð fram fundagerð hverfisráðs eyrar og efribæjar á Ísafirði. Þar kom fram að hverfisráðið óski eftir svörum frá bænum varðandi það hann muni sjá um að tyrfa svæðið á gamla gæsló, útvega bekki og grjót við bílastæðið til að varna innakstri. Þá óskar ráðið eftir heimild til frekari skipulagningar á svæðinu með það í huga að fá stórt klifurtæki, ungbarnatæki og fleira. Ef heimildin fengist ætlaði hverfisráðið að vinna tillögu að skipulögðu svæði í samvinnu við tæknisvið og kynna fyrir bæjarráði. Hverfisráðið óskaði eftir svörum fyrir næsta fund sinn sem áætlaður er 12. september því ákvörðunin hefur áhrif á það í hvað fjárheimild ársins 2018 og næstu ára er varið.

Bæjarráð vísaði spurningum hverfisráðs til verðmats hjá umhverfis- og eignasviði Ísafjarðarbæjar og frestaði erindinu þar til frekari gögn væru til.

Í fundagerð hverfisráðsins kemur fram að samstaða væri hjá ráðinu um að nýr ærslabelgur yrði settur niður á svæðinu þar sem gamli gæsló var við Gamla sjúkrahúsið. Þannig væri hann sem lengst frá íbúðarhúsum, mikill hluti malarsvæðisins væri nýttur og gott útsýni yrði að belgnum úr nokkrum áttum. Nálægð við veggi Gamla sjúkrahússins byði upp á að þar væru settir niður bekkir og borð svo hægt væri að tylla sér niður í skjóli á meðan að börn væru að leik. Einnig er ljósastaur þarna nálægt svo svæðið er upplýst þegar það fer að rökkva snemma.

Hverfisráðið var jafnframt sammála um að það þyrfti að færa fótboltamarkið sem er þarna yfir á túnið og jafnvel fá annað mark á móti. Þá hefur ráðið áhuga á að skipuleggja svæðið til framtíðar með leiksvæði fyrir 5-15 ára í huga og æfingatæki sem fullorðnir geta nýtt sér. Þau sjá jafnan fyrir sér að í framtíðinni verði þrjú leiksvæði, Skipagöturóló, gamla gæsló og nýtt svæði í efribæ fyrir innan Menntaskólann og setja niður í fundagerð hugmyndir að leiktækjum og úrbótum fyrir hvert svæði.

Ærslabelgurinn er þegar kominn niður við Gamla sjúkrahúsið en þegar hverfisráðið kynnti hugmyndirnar á Facebooksíðu sinni voru ekki allir á eitt sáttir við staðsetningu belgsins. Fáeinum nærliggjandi íbúum þykir hann fullnálægt íbúðarhúsum og þar með svefnherbergjum sínum og veltu fyrir sér hvort ekki giltu sérstakar reglur um uppsetningu slíkra tækja í íbúðahverfum. Hverfisráðið svaraði því til að svæðið væri skipulagt í aðalskipulagi og heimilt að setja ærslabelginn upp. Að auki yrði hann tímastilltur svo ekki væri unnt að hoppa á honum allan sólarhringinn.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA